139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[15:34]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi neyðartilfelli held ég að óhætt sé að fullyrða að ekki er verið að breyta neinu þar þó að það þurfi auðvitað betri skýringu á því hvað þar er átt við. Ég hef ekki skilið þetta þannig að ef maður sækir eitthvert neyðarlyf út í lyfjaverslun þá gildi þetta kerfi, en ef þér eru gefin lyf í neyðarmóttöku hvort sem það er í sjúkrabíl eða á sjúkrahúsi þá sé það greitt af öðrum aðilum en Sjúkratryggingum. En það er auðvitað full ástæða til að skoða betur hvað átt er við.

Það er rétt sem hér kemur fram að sú sérkennilega staða getur komið upp að maður hafi borgað í upphafi ákveðin lyf fyrir lága upphæð en lendi svo í lok tímabilsins í því að borga hærri upphæð og svo strax daginn eftir, sem er auðvitað fræðilegt, kæmi töluvert há upphæð á næsta tímabil en síðan yrði væntanlega hlé það árið. Þá reynir á það sem við vorum að ræða fyrr í andsvörum. Þá þarf að vera til staðar greiðsludreifing eða kerfi sem jafnar greiðslur út yfir mánuðina þannig að viðkomandi einstaklingar geti ráðið við þær og þurfi ekki að gjalda fyrir að svo hár reikningur komi í einu. En hugmyndin er að vera með jafnaðargreiðslur í hverjum mánuði ef menn nota lyf á annað borð en ef menn nota engin lyf (Forseti hringir.) sleppa þeir. Það er þá tryggt að menn séu ekki að borga mikið fyrir lyfjanotkun ef þeir þurfa að vera á miklum lyfjum vegna sjúkdóma.