139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er ekki sammála því að hrunið hafi haft einhver áhrif á það að menn hættu við nýtt greiðsluþátttökukerfi. Hrunið hefði einmitt átt að ýta undir það að menn héldu áfram vegna þess að fjöldi fólks borgar mjög mikið í núverandi kerfi fyrir lyf og læknisþjónustu, rannsóknir og dittinn og dattinn í kringum sjúkdóma, mjög mikið. Það kom einmitt fram í nefndarstarfinu að sumt fólk þarf að borga fleiri hundruð þúsund í kostnað. Og ef ekki er ástæða til að hlífa fólki við slíkum kostnaði, hvenær væri það nema eftir hrun? Það hefði getað bjargað mjög mörgum ef komið hefði verið greiðsluþátttökukerfi fyrir allt heilbrigðiskerfið. Ég mundi segja að hrunið hefði átt að ýta undir það að menn tækju upp félagslega vernd fyrir borgarann gegn miklum kostnaði.

Ég held hins vegar að það sem menn óttuðust, sumir, var að þá kæmi í ljós hver kostnaðurinn væri. Ef menn hefðu ætlað að taka alla heilbrigðisþjónustuna undir hefði þurft að verðmeta ýmsa þjónustu raunverulega og menn síðan borgað þá þjónustu upp að ákveðnu þaki, þá hefði komið í ljós hvað hún kostaði og að hugsanlega mætti gera hana ódýrari hjá einkaaðilum. Það er þetta sem ég held að þáverandi hæstv. ráðherra, Ögmundur Jónasson, hafi óttast og þess vegna sló hann nefndina af. Mér fannst það mjög neikvæð ákvörðun og hún skaðaði almenning, sérstaklega þá sem eru langveikir og mikið sjúkir og þurfa þjónustu mjög víða, ekki bara lyf heldur þjálfun, rannsóknir, geislameðferð og ég veit ekki hvað og hvað, sem fólk er í rauninni ekki varið fyrir, ekki einu sinni eftir þetta frumvarp.