139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel þetta ekki rétt. Þó að eftir hrun væri vissulega álag og menn hafi reynt að bjarga mörgum hlutum þá var greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu aldeilis eitthvað sem menn hefðu átt að keyra í gegn. Það hefði átt að hafa fyrsta forgang að reyna að létta á langveiku fólki sem þarf að borga mikinn kostnað í öllu heilbrigðiskerfinu. Það hefði heldur betur verið ástæða til að hjálpa því til að komast í gegnum þennan skafl.

Ég bendi á að menn höfðu bæði peninga og mannafla til að sækja um aðild að Evrópusambandinu og það kostar óskaplega mikla orku í öllum ráðuneytum. Menn höfðu tíma til þess en ekki til að keyra í gegn hluti sem voru komnir mjög langt í þróun og voru nánast, ég giska á að það hafi verið svona tvær, þrjár vikur í ákvörðun. Þetta var spurning um hvort það væri danska kerfið sem hér yrði tekið upp eða kerfi með fljótandi meðaltali, sem ég held að hefði verið mjög athyglisvert að skoða, þ.e. að menn borgi aldrei meira en ákveðna upphæð á t.d. sex mánuðum. Það hefði nýst t.d. langveiku fólki, þeim sem eru sykursjúkir og gigtveikir og öðrum sem eru illa tryggðir í dag.

Hér er sem sagt stigið ákveðið skref og auðvitað fagnar maður því að það sé stigið. Ég tek undir með hv. þingmanni að við þurfum að líta jákvætt á það sem gert er og reyna að vinna eins vel úr því og hægt er. Mér finnst reyndar slæmt að menn skuli hafa valið þessa sænsku leið og sérstaklega að hafa þetta ótakmarkað nema með einhverjum sérstökum heimildum. En þetta er eitthvað sem þarf að skoða í hv. heilbrigðisnefnd, sem ég á því miður ekki sæti í en ég mun fylgjast með hvernig málinu vindur fram.