139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

sjúkratryggingar.

784. mál
[16:27]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hafa stuðning jafnaðarmannsins hv. þm. Péturs H. Blöndals varðandi tannlækningakostnað. Hann bendir á ákveðna leið sem er að borga niður ákveðið verð. Þetta er í rauninni það sem verið er að gera þegar menn eru utan samnings og borgað er fast verð. Þá stenst náttúrlega ekki það sem við segjum á sama tíma um ákveðið hlutfall af kostnaðinum.

Þetta er auðvitað erfitt í dreifbýli hjá okkur af því að tannlæknar eru ekki alls staðar. Sumir eiga ekki aðgang að þeim nema á ákveðnum svæðum. Þetta getur því verið erfitt upp á kostnað og misskiptingu. Það þyrfti líka að íhuga hvort verðið eigi þá að vera auglýst verð eða uppgefið verð. Auðvitað eiga tannlæknir að gefa upp hvað mismunandi hlutir kosta. Allt þetta er í skoðun og þarf að vera í skoðun svo við finnum lausn á þessu. Þetta er óviðunandi eins og þetta er núna og við þurfum að koma böndum á þetta.

Það verður að segjast alveg eins og er að menn velta því líka fyrir sér að ráða tannlækna á heilsugæslustöðvar og í skóla til að ná utan um þetta. Ég hef ekki talað fyrir því. Ég treysti á að tannlæknar þvingi okkur ekki þá leið. En einhvern veginn verðum við að ná utan um þetta svo við getum veitt þessa þjónustu á fullnægjandi hátt eins og við viljum veita hana fyrir börn og raunar aldraða líka.

Varðandi aldraða hef ég skilið það svo að þetta tengist því þegar menn fái tilteknar bætur; að því uppfylltu fái þeir niðurfellingar eða lækkanir. Það kemur kannski ekki skýrt fram þarna en er þá eitthvað sem þarf að skoða, þ.e. slík tekjutenging ef aldraðir eru flokkaðir sem einn hópur. Ég treysti á að hv. heilbrigðisnefnd skoði það í umfjöllun sinni.