139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér er ekki kunnugt um að menn hafi á prjónunum nein þau fyrirtæki við námugröft sem mundu falla undir þetta. Hins vegar getur það vel orðið. Ísland er ekki verðmætalaust á því sviði og hugmyndir um námugröft hafa verið hér. Í fyrsta lagi hafa verið hér ýmsar námur frá því að ég held á 18. öld og menn hafa reynt til við annars konar námugröft sem við vitum aldrei hvort gæti orðið að raunveruleika vegna þess að heimurinn er breytilegur og þar á meðal verðmætamat manna og kostnaður við námugröft. Ég ætla ekki að spá því að gull finnist í Öskjuhlíðinni en hver veit? Ef það gerist er a.m.k. lagaramminn tilbúinn til að taka á því og leiðbeina þeim mönnum sem kynnu að vilja grafa sig niður að gulli í Öskjuhlíðinni eða Esjunni eða öðrum þeim stöðum þar sem dýrmætir málmar kunna að felast. Það er auðvitað klárt að Ísland er ungt land að jarðfræði til en við vitum líka að þrátt fyrir það geta fundist hér verðmæti í jörðu sem menn kynnu að geta unnið þannig að það svaraði kostnaði.