139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, ég verð að viðurkenna það eins og það er að ég er ekki mjög kunnugur gullgreftri eða annarri námuvinnslu. Ég las í gamla daga Námur Salómons konungs og hef haft fræðilegan og ævintýralegan áhuga á námuvinnslu af ýmsu tagi en ég veit ekki hvaða úrgangur mundi fylgja t.d. gullgreftri í Esjunni eða Öskjuhlíðinni. En kæmi slíkur úrgangur upp með gullinu sem þar kynni að finnast höfum við sem sé lagarammann til að taka við honum.

Hvað ríkið Jamaíku varðar og fleiri þriðja heims lönd er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að þessi lönd eru því miður svo óheppin að vera ekki í Evrópusambandinu og þess vegna gildir þar ekki tilskipun Evrópusambandsins sem við erum að innleiða hér. Það væri auðvitað betur ef hinar ágætu tilskipanir og reglur Evrópusambandsins og bandalagsríkja þess, þar á meðal Íslands, giltu víðar og þar á meðal á ýmsum stöðum í þriðja heiminum en það kann kannski að verða því að Evrópusambandið hefur að ýmsu leyti verið fyrirmynd annarra ríkja að löggjöf til og ég hygg að það haldi áfram að vera það með dyggum stuðningi mínum og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.