139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Lokaorð hv. þm. Marðar Árnasonar voru athyglisverð en hann sagði að Evrópusambandið væri ríki. Þá vitum við hvernig Samfylkingin lítur á Evrópusambandið, sem ríkjabandalag en ekki hóp sjálfstæðra ríkja innan þess.

Vissulega virðist vera að þingmaðurinn sé ekki mjög vel að sér í námugreftri og það sýnir meðvirknina sem á sér stað einmitt þegar tilskipanir og reglugerðir frá Evrópusambandinu koma hingað. Þetta er jafnóþörf tilskipun á Íslandi hvort sem Ísland er í ESB eða ekki. Hér finnst ekkert á Íslandi sem kemur til með að falla undir þessa reglugerð í nánustu framtíð.

Tökum dæmi. Nú standa Norðmenn í lappirnar gagnvart hinu miðstýrða ógnarvaldi sem birtist í Brussel-reglugerðum og tilskipunum. Þeir eru núna að láta á það reyna að hafna því að innleiða póstreglugerð sem kemur frá Evrópusambandinu vegna þess að hún hentar ekki Noregi því að Noregur er strjálbýlt land. Ég er mjög stolt af grönnum okkar í Noregi og aðilum að EES-samningnum að þeir skuli láta á þetta reyna. Mesti sérfræðingurinn í Evrópurétti, hv. varaþingmaður Samfylkingarinnar Eiríkur Bergmann, var meira að segja að spá því í dagblöðunum í morgun að þessu mætti jafna við kjarnorkubombu, hvorki meira né minna, við það eitt að Noregur geri þetta. Við eigum að neita því að taka upp reglugerðir frá Evrópusambandinu henti þær ekki íslenskum aðstæðum en þá er því líkt við kjarnorkubombu. Þarna sést hvernig þetta miðstýrða vald verður grimmilegt gagnvart þessum ríkjum. Þarna sýna þeir í Brussel sitt rétta andlit, það sé betra fyrir þessar tvær þjóðir að haga sér vel gagnvart þeim.

Ég ætla að snúa mér að nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum, sem ég skrifa ein undir, en eins og flestir vita er það mál á dagskrá núna. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr nefndarálitinu og ætla svo að upplýsa aðeins um hvað þessi tilskipun er sem um ræðir.

Minni hlutinn er samþykkur þeirri ákvörðun meiri hlutans að viðhalda því fyrirkomulagi sem verið hefur á endurvinnslu og förgun einnota drykkjarvöruumbúða frá 1989. Hefur það fyrirkomulag reynst afar vel og ekki er ástæða að hreyfa við því kerfi.

Samkvæmt frumvarpinu átti að breyta þessu kerfi og taka það úr sambandi eins og það er, en umhverfisnefnd öll að yfirlögðu og upplýstu máli ákvað að hreyfa ekki við því kerfi og nú liggur fyrir þinginu breytingartillaga í þá átt að fella þá kafla burt úr frumvarpinu og ég fagna því vegna þess að þetta er atvinnuskapandi. Kerfið hefur verið sett um allt land og gerir það kleift að nærumhverfið sinnir því að taka á móti dósum og flöskum frá öllum Íslendingum.

Samkvæmt frumvarpinu á að bæta við nýjum lagaákvæðum um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, með fimm nýjum lagagreinum sem fjalla um útgáfu starfsleyfis fyrir námuúrgangsstaði auk fleiri ákvæða sem tengjast útgáfu starfsleyfis fyrir slíka starfsemi, en með hugtakinu námuúrgangsstaður er átt við stað þar sem fram fer efnistaka á landi eða neðanjarðarnáma og spilliefni, sem eru notuð eða falla til við námuvinnsluna, eru meðhöndluð sem úrgangur. Námuúrgangsstaður er förgunarstaður samanber 5. tölulið a-liðar 1. gr. frumvarpsins. Í breytingartillögu meiri hlutans er þessari skilgreiningu breytt þannig: „staður í námu þar sem spilliefni sem notuð eru eða til falla við námuvinnslu eru meðhöndluð sem úrgangur.“ Gildir það einu, námuvinnslu þar sem spilliefni falla til við vinnslu er ekki að finna á Íslandi. Minni hlutinn mótmælir því að verið sé að setja lög um eitthvað sem er ekki til í íslensku samfélagi og ekki er séð að verði til í nánustu framtíð eða um aldur og ævi. Er hér að sjálfsögðu átt við innleiðingu tilskipunar 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði.

Frú forseti. Ég hef verið að benda á það í umhverfisnefnd að það sé einkennilegt þegar frumvörp koma fyrir þingið að þær tilskipanir sem verið er að vísa í og verið er að innleiða með lagafrumvörpum skuli ekki fylgja sem fylgiskjöl með frumvörpunum þannig að þetta sé aðgengilegra, ekki bara fyrir okkur þingmenn heldur Íslendinga alla og þá sem þurfa að fletta upp í lagasafninu, ég tala nú ekki um lögfræðinemendur og aðra vegna þess að hér þarf sífellt að vera að fletta á milli kafla. Samkvæmt því sem hv. formaður umhverfisnefndar, Mörður Árnason, sagði áðan hefur hann greinilega ekki fundið þessa reglugerð því að ekki var að heyra á máli hans að hann vissi út á hvað þessi reglugerð mundi ganga og hvað úrgangur frá námuiðnaði væri og hvers konar námur væri um að ræða. Því langar mig til að grípa niður í tilskipunina til að styrkja mál mitt því að ég er að leggja til að kaflinn um námuiðnaðinn falli brott úr frumvarpinu verði það að lögum. Þessi tilskipun nr. 2006/21/EB er eins og hún stendur núna, það varð breyting á tilskipun um sama efni nr. 2004/35/EB en hún fjallar um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, gerð úrgangsáætlana, starfsleyfi, fjárhagslega ábyrgð o.fl. Einnig breytir gerðin tilskipuninni frá 2004 eins og ég talaði um áðan um umhverfisábyrgð þannig að námuiðnaði er bætt við í viðauka III í þeirri tilskipun.

Tilskipunin setur reglur um meðhöndlun úrgangs frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu (námuiðnaður). Tilskipunin gildir ekki um annan úrgang en þann sem stafar beint af námuvinnslunni né heldur um úrgang frá námuvinnslu af landi (hafsbotni). Óvirkur og ómengaður úrgangur er undanþeginn nokkrum ákvæðum hennar, m.a. ákvæðum um leyfisskyldu, upplýsingar til almennings og fjárhagslega ábyrgð. Aðildarríki geta fellt niður eða dregið úr kröfum vegna geymslu á hættulausum úrgangi frá námuvinnslum ef almennum ákvæðum tilskipunarinnar er fylgt. Strangari reglur skulu gilda um þær námur þar sem spilliefni eru notuð eða falla til við námuvinnsluna og úrgangurinn er meðhöndlaður á staðnum. Almennt gildir að úrgang frá námuiðnaði skal meðhöndla á þann hátt að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi. Framkvæmdaraðili eða sá sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skal sjá til þess að áhrif úrgangs séu sem minnst á umhverfi og heilsu manna, einnig eftir lokun námunnar, og að meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði byggist á bestu fáanlegu tækni. Framkvæmdaraðilar eða aðrir sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skulu gera úrgangsáætlun sem miðar af því að lágmarka úrgang og ákveða meðhöndlun, endurnýtingu eða förgun á námuúrgangi. Hafa skal sjálfbærni í huga við áætlanagerð. Ef einhver hætta fylgir námuúrgangi skal greina hana og hanna námuna/úrgangsstöðina með tilliti til hættunnar svo hægt sé að fyrirbyggja umhverfisslys. Einnig er skylt að gera viðbragðsáætlanir vegna mengunarhættu og upplýsa almenning um þær. Gerð er sú krafa að námuúrgangsstaðir hafi starfsleyfi.

Frú forseti. Ég verð að stinga því hérna inn á milli, því að ætla ég síðan að fara yfir það hvað fellur ekki undir þessa reglugerð, að hér birtist okkur alveg einstaklega kratavædd reglugerð þar sem verið er í fyrsta lagi að koma upp miklu eftirlitskerfi varðandi námur og í öðru lagi mikilli upplýsingaflækju og verið að skapa mörg opinber störf í hverju ríki Evrópusambandsins. En svona gengur þetta fyrir sig, að eftirlitskerfið er byggt upp fyrst af ríkjum Evrópusambandsins og svo í kjölfarið kemur eftirlitsiðnaðurinn og fylgist með að allt fari rétt fram þegar atvinnurekstur er kominn af stað. (Gripið fram í.)

Mig langar til að lesa upp til að upplýsa hv. formann umhverfisnefndar, af því að ég heyrði ekki hvað hann sagði þegar hann greip fram í, hvað það er sem fellur ekki undir þessa tilskipun vegna þess að það er eitthvað á huldu. Hann telur t.d. að gull í Esjunni eða gull í Skjaldbreið eins og hann talaði um, falli undir þetta. Í mörgum töluliðum, yfir rúmlega 20 töluliðum er fjallað um akkúrat það sem þessi reglugerð fjallar ekki um og þarna birtist kratisminn í lagasetningu Evrópusambandsins enn á ný. Ég gríp niður í 8. lið og er þá búið að fjalla um í löngu máli hvernig þetta kerfi var sett á og vísað í alls konar samninga, aðrar reglugerðir og annað, en ég les upp 8. lið, með leyfi forseta:

„Til samræmis við það gilda ákvæði þessarar tilskipunar ekki um strauma úrgangs sem tengjast ekki námi eða meðhöndlun beint, t.d. matarúrgang, olíuúrgang, úr sér gengin ökutæki, notaðar rafhlöður eða rafgeyma, enda þótt þessi úrgangur verði til við nám eða meðhöndlun jarðefna. Meðhöndlun slíks úrgangs skal falla undir ákvæði tilskipunar 75/442/EBE eða tilskipunar ráðsins 1999/31/EB um urðun úrgangs eða annarrar viðeigandi löggjafar bandalagsins, eins og raunin er um úrgang sem fellur til á leitar-, námu- eða meðhöndlunarsvæði og fluttur er á stað sem er ekki úrgangsstöð samkvæmt þessari tilskipun.“

Þarna eru ansi mörg „ekki“. Þetta var t.d. það sem fellur ekki undir þessa tilskipun enda erum við líka að fjalla um rafhlöður og rafgeyma í annarri tilskipun sem á að fara inn í þessi lög en þarna er verið að setja margar tilskipanir inn í eitt frumvarp og bera það inn í Alþingi Íslendinga.

Í 9. lið segir:

„Þá gildir þessi tilskipun hvorki um úrgang af völdum leitar, náms eða meðhöndlunar verðmætra jarðefna á hafi úti né ídælingu vatns eða endurídælingu grunnvatns sem er dælt upp, en hins vegar gilda einungis takmarkaðar kröfur um óvirkan úrgang, hættulausan úrgang sem fellur til við leit, ómengaðan jarðveg og úrgang sem fellur til við nám, meðhöndlun og geymslu mós þar eð umhverfisáhætta samfara slíkum úrgangi og jarðvegi er minni. Aðildarríkin geta dregið úr tilteknum kröfum eða fellt þær niður að því er varðar hættulausan, óvirkan úrgang. Þessar undanþágur skulu þó ekki gilda um úrgangsstöðvar í A-flokki.“

Í 10. lið segir:

„Að auki skal þessi tilskipun, enda þótt hún taki til meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði sem e.t.v. er geislavirkur, ekki taka til þátta sem sérstaklega eiga við um geislavirkni, enda fellur það mál undir sáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.“

Svo mörg voru þau orð. Hérna heldur þetta áfram, upp í rúma 20 liði sem þessi tilskipun tekur ekki yfir. Því spyr ég sjálfa mig: Yfir hvað tekur þessi tilskipun sem snýr að Íslandi eða bara hreinlega Evrópusambandinu sjálfu? Það virðist vera að kratisminn sé kominn á það hátt stig í Evrópusambandinu að farið er að búa til reglugerðir, lög og tilskipanir um eitthvað sem er alls ekki til þar. (MÁ: Er það ekki framsóknarmennska?) En það er ágætt að þetta sé með þeim hætti, frú forseti. Þetta er verið að taka upp í íslenskan rétt að tilstuðlan hæstv. umhverfisráðherra. Formaður umhverfisnefndar verður að sjálfsögðu að fylgja því eftir því að frumvarpið kemur í gegnum Stjórnarráðið frá Brussel og hér stöndum við á þingi og erum að setja lög um eitthvað sem er ekki til, alveg frábær staða sem við erum í.

Ég mátti til með að benda á þetta vegna þess að þetta er einungis eitt dæmi um það í hvað tími Alþingis fer. Mér varð á að kíkja inn á dagskrá utanríkismálanefndar fyrir morgundaginn og þar er t.d. um að ræða tæplega 20 mál, innleiðing EES-reglugerða. Við vitum að Ísland er í aðlögunarferli að Evrópusambandinu en fyrr má nú vera, fyrr má nú vera kröfur sem settar eru á lítið þjóðfélag, á Alþingi sem er mjög veikburða, fjárvana og skortir sérfræðinga, sérstaklega í Evrópurétti. Ég minni á að ekki var bætt við fagþekkingu þingsins eða nefndasviðið styrkt þegar EES-samningurinn var lögleiddur, og svo er enn. Hér þarf aukið fjármagn og fagmennsku til að þingið geti einfaldlega ráðið við það verkefni sem því er falið en svona kristallast þetta og það er rétt að byrja.

Ég gríp niður í nefndarálitið, með leyfi forseta:

Enn og aftur opinberast sú staðreynd að Alþingi Íslendinga hefur ekki burði til að ráðast í endurbætur á lagasetningum sem berast frá Evrópusambandinu eða hreyfa mótmælum við innleiðingu tilskipana og reglugerða á því sjö vikna tímabili sem koma á mótmælum á framfæri.

Þegar reglugerðir og tilskipanir sem áætlað er að innleiða í EES-rétt frá Evrópusambandinu eru lagðar fyrir hafa íslensk stjórnvöld sjö vikur til að hafna því að taka upp í íslenskan rétt með rökstuddu áliti að það eigi ekki við hér á landi. Þarna hafa íslensk stjórnvöld algerlega brugðist allt frá upptöku EES-samningsins. Ég veit ekki til þess að því neitunarvaldi hafi nokkurn tíma verið beitt í upphafi máls, ég vísa í póstreglugerðina sem Norðmenn eru að hafna nú. Hún er komin langt og þeir voru komnir í það að fara að innleiða hana í norskan rétt en þá stíga þeir skrefið til baka og ætla að hafna því nú. Á sama grunni ættum við að geta hafnað þessu nú þó að þetta sé komið svona langt. En þarna þarf að gefa heldur betur í, setja meira fjármagn og raunverulega að sleppa tökum á meðvirkninni sem íslenskt samfélag er í eftir hrunið og fyrir hrun. Ég kalla það Evrópusambandsmeðvirkni að ekki megi blása eða gagnrýna neitt sem kemur frá Evrópusambandinu. Það skýrist allt í þessu frumvarpi.

Hvað varðar það sem hv. formaður umhverfisnefndar fór yfir þá ég styð frumvarpið að öllu leyti en ekki þann þátt sem snýr að reglugerð nr. 2006/21/EB, um námugröftinn og námuiðnaðinn. Ég vil að þau ákvæði verði felld úr frumvarpinu en styð það að öðru leyti vegna þess að þar eru ágætisákvæði um t.d. förgun rafgeyma og annað. Ég legg því til fjórar breytingartillögur sem óþarfi er að lesa upp en þær snúa að því að þessi kafli verði felldur úr lögunum.

Það vill nefnilega þannig til að vestrænar þjóðir líta svo á að þær séu hafnar yfir þriðja heims ríkin, því miður. Það sást best í staðgöngumæðramálinu. Þegar fræðslumyndin frá Indlandi var sýnd velti indverski iðnaðurinn 60 milljörðum íslenskra króna árið 2007, þar sem vestrænum pörum finnst sjálfsagt að fara til Indlands og láta indverska konu ganga með börnin sín fyrir sig. Það er jafnmikil hræsni sem birtist í þessu frumvarpi að tala um hættulegan námugröft og eiturefni sem til falla. Ég minntist t.d. á í andsvari við hv. þm. Mörð Árnason áðan að það væru liþíum-verksmiðjur á Jamaíka sem Vesturlandabúar nota til að knýja rafmagnsgeyma sína, að þar er verið að fórna mannslífum án þess að það sé undir eftirliti. Svo er mér minnisstæð, af því að ég var að tala um heimildarmyndir, önnur mynd sem var sýnd í ríkissjónvarpinu eftir áramótin um ríki í Afríku þar sem allir mennirnir voru sendir í námur til að vinna og sækja efni, baneitrað, til að við Vesturlandabúar getum talað saman í GSM-símum. Þar var sérstaklega NOKIA-fyrirtækið í Svíþjóð gagnrýnt og farið var í höfuðstöðvarnar þar og þeir spurðir að þeim siðferðisspurningum hvort Vesturlandabúum þyki rétt að verið sé að fórna mannslífum í þriðja heiminum fyrir lúxus Vesturlandabúa. Fátt var um svör. En ég minni á eins og með rafgeymana, öll þau fyrirtæki þurfa liþíum í rafgeyma, að allir GSM-símaframleiðendur þurfa þetta sérstaka efni í GSM-síma. Höfum þetta hugfast.

Hér er Evrópusambandið raunverulega að setja reglur sem það ætti langtum frekar að beita sér fyrir í þriðja heims ríkjunum, þ.e. að stoppa námugröft þar. Evrópusambandið ætti að líta sér nær og við Íslendingar ættum að sjálfsögðu að líta okkur nær vegna þess að hér er verið að eyða tíma Alþingis í að setja lög um eitthvað sem er ekki til, var ekki til og verður ekki til á Íslandi.