139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:14]
Horfa

Frsm. viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari kannski síðustu spurningunni fyrst þá tel ég ekki hyggilegt að setja það í lagatextann að um undantekningartilvik sé að ræða. Ég held frekar að við notum það í lögskýringargögnum og það hefur komið skýrt fram í framsögu og kemur skýrt fram í nefndaráliti sömuleiðis.

Ég tel að okkur hafi tekist í útfærslunni í lagarammanum að ramma þetta vel inn til að hnykkja á þeim skilningi að um undantekningartilvik sé að ræða með því að skilyrða ákvarðanatökuna við þrjár stofnanir og að leggja áherslu á að ekki bara lögmæt sjónarmið þurfi að liggja til grundvallar heldur sömuleiðis ákveðin samkeppnisgreining á því til þess að menn þurfi að rökstyðja það með ákveðnum hætti áður en þeir leggja af stað í þá vegferð sem hér er veitt heimild til.

Það kom fram við nefndina að íslenski lyfjamarkaðurinn er um það bil 6–7% af þeim norska sem þýðir að náum við samstarfi við norska innkaupaaðila um innkaup á lyfjum muni stærðarhagkvæmnin aukast margfalt hjá okkur en hefur óverulegar breytingar fyrir norsku aðilana. Í þetta eru menn fyrst og fremst að horfa en eins og kom fram í máli mínu áðan er nú til staðar ákveðið samstarf hjá Norðmönnum og Dönum um innkaup á lyfjum. Hvatinn til að opna fyrir heimildina til að taka þátt undir hatti annarra innkaupastofnana, systurstofnana erlendis, er ekki jafnríkur hjá stórþjóðum. Þó að Norðurlandaþjóðirnar líti á sig sem litlar þjóðir þá eru þær í okkar augum stórþjóðir og 6–7% af innkaupamætti sýnir glögglega þann ávinning sem við fáum og náið samstarf Norðmanna og Dana sýnir að þeir sjá sér líka hag í að vinna náið enda er um svipaða stærð af þjóðum að ræða. Þannig ná þeir að tvöfalda sitt innkaupavægi.