139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi fyrst segja að ég held að það sé hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að ástæða sé til að skoða þetta mál vel, lagasetningu á þessu sviði, vegna þess að þrátt fyrir að ákveðið tilvik hafi verið haft í huga þegar tillagan var lögð fram er hún í eðli sínu almenn og getur haft áhrif á miklu fleiri sviðum en upphaflegir tillöguflytjendur höfðu kannski í huga. Við skulum líka hafa í huga að hér er verið að leggja til lagabreytingu sem á að gilda um nokkurn tíma, a.m.k. fimm ár sýnist mér á breytingartillögu hv. viðskiptanefndar. Lagatextinn verður því að vera með þeim hætti að hann verði ekki misskilinn og menn þurfi ekki að reiða sig á skilning þeirra sem nú sitja við stjórnvölinn í ráðuneytum eða stofnunum heldur að reglan sem slík sé það skýr og vel útfærð að ekki þurfi að leika vafi á um það í framtíðinni hvernig ber að túlka hana. Þetta vildi ég árétta. Ég skora svo á hv. viðskiptanefnd að fara gaumgæfilega yfir þetta.

Ég vildi árétta örfá sjónarmið um þetta mál vegna þess að ef ég man rétt var ég kannski í hópi fárra, jafnvel sá eini, við 1. umr. málsins sem lýsti ákveðnum efasemdum um málið og ég verð að játa að ég hef ákveðnar efasemdir enn þá jafnvel þó að ég styðji heils hugar alla viðleitni til að ná hagkvæmum innkaupum fyrir hið opinbera og þar af leiðandi sparnaði fyrir skattgreiðendur. Um það er enginn ágreiningur að það er markmið sem við hljótum að stefna að, ekki bara nú þegar kreppir að heldur á öllum tímum.

Hins vegar er það svo að innkaup ríkisins eru að mörgu leyti sérstök. Ríkið er sérstakur kaupandi í mörgum skilningi, það er sérstakur kaupandi í því sambandi að þeir sem kaupa inn fyrir það eru auðvitað að fara með almannafé og verða að gæta þess að fara sérstaklega varlega með það fé sem þeim er trúað fyrir. Í annan stað er ríkið sérstakur kaupandi að því leyti að það er í störfum sínum bundið af miklu fleiri lögum og reglum en kaupendur vöru og þjónustu almennt. Það er beinlínis gerð um það skýr krafa í stjórnskipun og stjórnsýslu að ákvarðanir stjórnvalda, þar á meðal um innkaup, styðjist við heimildir í lögum og málsmeðferð þarf að lúta lögum o.s.frv. Ríkið er líka sérstakur kaupandi að því leyti að það er í mörgum tilvikum í verulega sterkri stöðu, jafnvel yfirburðastöðu, í samanburði við aðra kaupendur einfaldlega vegna þess bolmagns sem það hefur umfram flesta ef ekki alla a.m.k. innlenda kaupendur vöru og þjónustu. Ríkið getur sem kaupandi vöru og þjónustu þar af leiðandi haft miklu meiri áhrif á markaði en aðrir aðilar geta að öllu jöfnu. Um það hefur verið allgóð sátt að vegna hinnar sérstöku stöðu ríkisins sem kaupanda, og reyndar opinberra aðila annarra, eigi að gilda sérstakar reglur um hvernig það eigi að haga innkaupum sínum. Það lýtur miklu stífari reglum, þarf að starfa innan miklu stífari lagaramma en einstaklingar eða aðrir lögaðilar í þjóðfélaginu sem kaupa inn vöru og þjónustu og um það hefur ekki verið ágreiningur.

Ég er þeirrar skoðunar að frumvarpið sem við fjöllum hér um feli í sér töluvert mikið frávik frá núgildandi fyrirkomulagi, í raun og veru miklu meira frávik frá núverandi fyrirkomulagi þessara mála en ráða má af frumvarpinu sjálfu, greinargerð og nefndaráliti, af því að hér er um að ræða almenna heimild til opinberra aðila, stjórnvalda, og endanlega fjármálaráðherra til að styðjast við útboð, ekki útboð sem fer fram innan lands eða á öllu Evrópska efnahagssvæðinu heldur landsútboð sem fer fram í öðru ríki og lýtur réttarreglum annars ríkis.

Ég er ekki viss um, með fullri virðingu fyrir hv. fulltrúum í viðskiptanefnd sem ég veit að eru búnir að skoða ákveðna þætti þessa máls vel, að þeir hafi haft í huga hversu mikil breyting kann að vera hér á ferðinni. Hér kann að vera á ferðinni töluvert mikil breyting. Það finnst mér kalla á meiri skoðun en ráða má af þeim gögnum sem liggja fyrir í nefndaráliti og öðrum upplýsingum sem fram hafa komið um meðferð málsins í hv. viðskiptanefnd. Þegar við tökum ákvörðun um verulega breytingu, hvort við köllum það grundvallarbreytingu læt ég liggja milli hluta en þetta er alla vega veruleg breyting, þurfum við að skoða hlutina verulega vel, skoða samspil við aðra löggjöf, skoða eftir atvikum fordæmi frá öðrum löndun, reynsluna af sambærilegum reglum í öðrum löndum og reyna að átta okkur á hvaða afleiðingar breytingin kemur til með að hafa.

Ég gat þess í andsvari, og það hefur komið skýrt fram bæði af hálfu hv. framsögumanns viðskiptanefndar, Magnúsar Orra Schrams, og hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, að rótin að þessum breytingum liggur í lyfjamarkaðnum fyrst og fremst. Reyndar hefur verið vísað til fleiri þátta, fyrst og fremst innkaupa á heilbrigðissviðinu en lyfjamálin hafa verið mjög í forgrunni í allri þessari umræðu. Ef við lesum greinargerð með frumvarpinu er nær eingöngu fjallað um lyfjamál. Ef við lesum nefndarálit er mjög mikið fjallað um lyfjamál og raunar er það svo að flestar þær umsagnir sem borist hafa vegna málsins snúast um lyfjamál.

Ég geri mér grein fyrir því að staðan hefur verið erfið, skulum við segja, í sambandi við innkaup á lyfjum. Það hafa verið deilur, það hefur verið ágreiningur og núningur milli aðila, seljenda lyfja annars vegar og kaupenda lyfja hins vegar. Kaupendurnir eru þá fyrst og fremst ríkismegin, hvort sem um er að ræða Landspítala eða aðra aðila. Og til að leysa þennan tiltölulega sértæka vanda á sérstöku mjög afmörkuðu sviði ríkisrekstrarins er lögð fram lagabreyting sem hefur mjög almennt gildi. Það kallar kannski á tvennt í mínum huga, tvenns konar vangaveltur getum við sagt, um hvort svona almenn lagabreyting á innkaupareglum ríkisins sé nauðsynleg til að mæta þeim sértæka vanda sem er fyrir hendi í sambandi við lyfjamálin. Annars vegar velti ég fyrir mér hvort reynt hafi verið til þrautar að fara aðrar leiðir til að leysa úr þeim núningi sem óumdeilanlega er fyrir hendi á þessu sviði og hins vegar kallar það líka fram þá hugsun hjá mér hvort nægilega hafi verið skoðað hvaða almennu afleiðingar samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér fyrir aðra markaði, aðra starfsemi en lyfjamarkaðinn sérstaklega. Ég verð að játa að af nefndaráliti hv. viðskiptanefndar finnst mér ekki koma nægilega skýrt fram hvort þessir tveir þættir hafi verið skoðaðir.

Ég vildi líka nefna að sú leið sem hér er lögð til eða sá lagatexti sem lagt er til að verði samþykktur er ekki bara almennur eins og ég hef margoft nefnt, þ.e. hann nær til allra vöru- og þjónustukaupa ríkisins eða getur náð, heldur er líka um að ræða að mínu mati afar opið heimildarákvæði þar sem skilyrðin fyrir heimildarákvæðinu, sem ég held að við séum í dag öll sammála um að sé undantekningarákvæði eða eigi að vera það, eru mjög óljós og almenn. Ekki er sagt með skýrum hætti í lagatextanum hvenær þessi undantekning á við. Það eru mjög óljósar leiðbeiningar um það, getum við sagt, hvenær þetta á við, þ.e. hvenær vikið er frá hinum almennu eða venjulegu leikreglum á þessu sviði og hvenær þessari heimild er beitt.

Hér í umræðunni hefur verið bent á að tvenns konar skilyrði fyrst og fremst þurfi að vera fyrir hendi. Annars vegar að það land sem valið er eða samið er við um innkaup í eða útboð í þurfi að hafa innleitt reglur hins Evrópska efnahagssvæðis og er allt gott um það að segja. Það segir að við erum þá búin að þrengja heimildina við þau 27+3 ríki sem þær réttarreglur eiga að hafa verið innleiddar í, það er búið að þrengja það aðeins með þeim hætti. Við verðum hins vegar að hafa í huga að þrátt fyrir að Evróputilskipanir setji ákveðinn ramma í þessum atriðum hafa löndin haft möguleika á að setja sérstakar landsreglur, innleiða tilskipanirnar með mismunandi hætti, þannig að það getur á margan hátt verið um að ræða mismunandi reglur þrátt fyrir að búið sé að þrengja hóp þeirra landa sem koma til greina með þessum hætti.

Hitt skilyrðið sem er nefnt er það að þrír aðilar eins og sagt er, kaupandinn, þ.e. sú stofnun eða sá aðili sem stendur beinlínis að kaupunum, Ríkiskaup og fjármálaráðherra þurfa að vera sammála um að fara undantekningarleiðina. Það er alveg rétt, það er ákveðinn varnagli í því. Það verður ekki fram hjá því horft að kaupandinn þarf að rökstyðja það gagnvart Ríkiskaupum og Ríkiskaup gagnvart fjármálaráðherra að rétt sé að fara þessa leið. En það verður samt að hafa í huga að í ákveðnum tilvikum má líta svo á að þessir þrír aðilar séu allir sömu megin við borðið, þ.e. þeir geta undir einhverjum kringumstæðum allir haft sömu hagsmuni, þeir eru allir kaupendamegin. Það veikir þetta.

Að lokum, hæstv. forseti, ég nefni þessi atriði til að útskýra af hverju þetta frumvarp slær mig ekki nægilega vel. Ég hef efasemdir um það enn þá, þó að ég taki fram að ég held að þær breytingar sem hv. viðskiptanefnd leggur til, ekki miklar en þó eru þarna breytingar sem ég hygg að geti verið til bóta, en ég hef efasemdir enn þá. Ég velti líka fyrir mér því atriði sem snýr að lögsögu, þeim lagareglum sem eiga að gilda og þess háttar, og ég verð að játa að það slær mig undarlega — það kann vel að vera að það gangi upp og er kannski ekki óheimilt — að í íslenskum lögum sé íslenskum stjórnvöldum falið að fara að erlendum lögum eða gefin heimild til að velja það að fara undir lögsögu erlendra aðila og að um innkaup opinberra aðila í íslensku stjórnsýslunni getið verið uppi sú staða að þeir sem vilja leita réttar síns þurfi að leita til kæruaðila í öðrum löndum. Ekki hjá einhverjum alþjóðastofnunum eins og Eftirlitsstofnun EFTA eða EFTA-dómstólnum heldur til eftirlitsaðila kæru og úrskurðaraðila í öðrum þjóðríkjum. Það finnst mér dálítið sérstakt og ég verð að játa að ég ræð það ekki af gögnum málsins að sá þáttur hafi verið hugsaður til enda.

Ég skil það svo og ég skil greinargerð með frumvarpinu svo að það sé ótvírætt að unnt sé að leita til íslenskra dómstóla vegna ágreiningsmála sem um þetta kunna að skapast. Ef kaupandinn er íslenskur hygg ég að hægt yrði, komi upp ágreiningur, að leita með slík mál til íslenskra dómstóla en kippt er út kæruleið innan stjórnsýslunnar sem er fyrir hendi varðandi almenn útboð eða innkaup hins opinbera hér á landi og mönnum boðið að fara, væntanlega, í kærumeðferð samkvæmt landsrétti í öðrum löndum vegna ákvarðana íslenskra stjórnvalda. Ég játa að þetta atriði stingur mig svolítið sérkennilega, það stingur mig undarlega, og séu fyrir hendi einhverjar skýringar í þessum efnum vildi ég gjarnan að þær kæmu fram, ef ekki nú við þessa umræðu þá hugsanlega þegar málið kemur aftur úr nefnd og verður tekið fyrir til 3. umr.

Hæstv. forseti. Að svo mæltu ætla ég að ljúka máli mínu. Ég treysti því að hv. viðskiptanefnd taki þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar að nýju og vera kann að þá muni koma fram svör við einhverjum af þeim spurningum sem ég hef velt upp eða röksemdir sem megna að sannfæra mig um að ég sé á villigötum í mati mínu á þessu máli.