139. löggjafarþing — 128. fundur,  17. maí 2011.

opinber innkaup.

189. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. viðskn. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á að þakka þingmanninum fyrir ræðu hans, innlegg hans í umræðuna, og vil bregðast við því með örstuttum hætti vegna þess að hann tæpti á atriðum sem við fjölluðum ítarlega um í nefndinni. Áhyggjur hans snúa að þáttum sem sá sem hér stendur hafði sömuleiðis áhyggjur af.

Fram kom í ræðu hans að um er að ræða almennt ákvæði til að taka á sértækum vanda eins og kom glögglega fram í greinargerð og framsögu. Nefndin leitaðist eftir því að ramma ákvæðið betur inn svo það mundi t.d. taka bara fyrsta kastið á möguleikanum á að taka þátt í útboði á lyfjamarkaðnum en það þótti ekki gerlegt frá lagatæknilegu sjónarmiði. Hv. þingmaður þekkir það betur en ég að erfitt er að setja inn svo sértæka heimild, heimildin þarf að vera almenn. Nefndin stóð í raun og veru frammi fyrir spurningunni hvort við vildum opna fyrir þann möguleika að velferðarráðuneytið og Landspítalinn gætu sparað hundruð millj. kr. með sameiginlegum innkaupum með því að gefa þeim heimild. Um leið leitaðist nefndin eftir því að ramma heimildina betur inn, t.d. með því að bæta við ákvæðinu um að í rökstuðningi fyrir beiðni Innkaupastofnunar skuli liggja fyrir mat á því hvort telja megi að viðunandi boð fáist með útboði á Íslandi. Þá hafa menn fyrst og fremst áhyggjur af, eins og flestir umsagnaraðilar, afdrifum innlendra aðila sem starfa á lyfjamarkaði sem þurfa engu að síður, eins og ég áréttaði, að sjá um þjónustu, birgðahald og dreifingu á þeim lyfjum sem keypt eru með þessum hætti.

Ég vil ítreka að nefndin tekur þetta aftur til umfjöllunar og þar munum við skoða með opnum hug þau álitaefni sem hv. þingmaður reifaði í ræðu sinni og ég vil þakka honum fyrir það.