139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú hefur verið birt árleg skýrsla um samkeppnishæfi þjóða sem lítur að þessu sinni vægast sagt illa út fyrir Ísland. Ísland er í 31. sæti, er dottið niður fyrir Tékkland sem er enn þá að byggja sig upp eftir að hafa verið undir stjórn kommúnisma. Ísland var komið upp í 4. sæti á þessum lista en er nú fallið niður í 31. sæti. Það sem heldur okkur þó enn uppi í 31. sætinu er tiltölulega sterk staða okkar hvað varðar innviði samfélagsins, þá innviði sem voru byggðir upp á liðnum áratugum.

Ef hins vegar er litið á þá þætti sem núverandi stjórnvöld hafa á valdi sínu lítur það hreinlega hræðilega út. Fjármálastefna stjórnvalda fær algjöra falleinkunn. Fjármál hins opinbera eru að falla til botns á listanum af öllum þeim löndum sem skoðuð voru og innlendur efnahagur er kominn á botninn. Ekkert annað land sem skoðað var í þessari árlegu úttekt fær jafnlága einkunn og Ísland hvað varðar innlendan efnahag. Öll þau atriði sem lúta að efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda og því hvernig þau geta snúið þróuninni við fá í raun falleinkunn.

Það er reyndar tvennt sem hefur aðeins færst til betri vegar, verðlag, væntanlega vegna gengisfalls krónunnar, og svo stjórnunarhættir fyrirtækja. Þar veitti ekki af því að þar höfum við fengið mjög lága einkunn fram að þessu. Í efnahagslegri frammistöðu er einkunnin afleit og sérstaklega er bent á það hversu hægt efnahagsbatinn gangi hér á þeim sviðum sem eru á valdi íslenskra stjórnvalda. Einkunnagjöf þessarar ríkisstjórnar er komin og hún lítur ekki vel út.