139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í gær í fyrirspurnatíma að Sjálfstæðisflokkurinn ræddi um breytingar í sjávarútvegi í upphrópunum, Sjálfstæðisflokkurinn tæki ekki efnislega umræðu, hann ræddi um sjávarútveginn og breytingar á honum í upphrópunum. Til að efnisleg umræða geti átt sér stað þurfa þingmenn að geta kynnt sér innihald frumvarpa. Drögin að frumvarpi um breytingar á stjórn fiskveiða sem við höfum séð innihalda miklar breytingar á núverandi kerfi, breytingar á byggðakvóta og strandveiðum, það eru komnir nýtingarsamningar, aukið vald fært til ráðherra og bann er við varanlegu framsali svo eitthvað sé nefnt.

Ég hef einnig upplýsingar um að drögin sem við höfum undir höndum hafi breyst, þau séu ekki það sem á að koma fram. Því vil ég spyrja hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, nú þegar níu þingdagar eru eftir: Eru frumvörpin tilbúin?

Virðulegi forseti. Eru frumvörpin tilbúin? Hvenær er ætlunin að leggja þau fram og hvernig á efnisleg umræða um eitthvað að geta átt sér stað ef hv. þingmenn fá ekki að kynna sér það? Hér veitum við dag eftir dag afbrigði fyrir málum. Ef hæstv. fjármálaráðherra kallar eftir efnislegri umræðu verður hann að gefa þinginu tækifæri til að kynna sér málið.