139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil blanda mér í þá umræðu sem verið hefur um samkeppnishæfi Íslands og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hóf. Það er auðvitað grafalvarlegt þegar slíkur mælikvarði sem lagður er á árangur síðustu tveggja ára núverandi ríkisstjórnar sýnir að það eina sem stendur upp úr er að innviðir séu sterkir — og þeir hafa verið byggðir upp á síðasta áratugum. Þessari ríkisstjórn hefur þá sem betur fer ekki tekist að hola þá innviði í sundur.

Ef við lítum aftur á móti á atvinnu, starfsumhverfi fyrirtækja og slíkt höfum við fallið niður í 34., 52. og jafnvel í neðsta sæti af þjóðunum 60 sem voru kannaðar. Það skýrist af því að það er skortur á framsýni hjá ríkisstjórninni í atvinnumálum. Við sjáum það til að mynda í sjávarútveginum, þar verður áframhaldandi óvissa ef ekki eitthvað alvarlegra. Uppbygging í ýmsum öðrum atvinnugreinum hefur vægast sagt verið ákaflega brothætt og vandræðagangur, hvort sem um er að ræða orkufrekan iðnað eða annað. Niðurskurður á heilbrigðismálum á landsbyggðinni hefur valdið því að samkeppnisstaðan hefur laskast víða á landsbyggðinni.

Viðskiptajöfnuðurinn er vissulega jákvæður en hann þarf að vaxa um 50–70 milljarða í viðbót frá því sem nú er ef ekki á illa að fara. Staðreyndin er sú að það er hægt, en þá þarf líka að snúa við blaðinu, beinlínis, og fara í framleiðslu hjá atvinnulífinu, framleiðniaukningu, og stefna á vaxandi útflutning til að byggja upp þetta samfélag svo við getum staðið undir því sem við erum að gera. Þá mun samkeppnishæfi Íslands vaxa á nýjan leik. En þá þarf að skipta um stefnu, og trúlega ríkisstjórn.

Ég ætla að snúa við blaðinu.