139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hörmuleg umræða Framsóknarflokksins um efnahagsmál nær náttúrlega ekki nokkurri átt. Hér kemur formaður flokksins og fylgisveinar hans og tala í þá veru að hér hafi allt þróast á verri veg í efnahagsmálum frá því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom að rústunum eftir efnahagshrunið. [Kliður í þingsal.] Það er auðvitað fjarri öllum sanni. Við höfum farið í gegnum efnahagsáætlun, fengið hana endurskoðaða fjórum sinnum og nú vonandi í fimmta sinn. Sannarlega getum við deilt um hvort það gangi nógu hratt að byggja upp aftur. En við þetta bölsýnistal höfum við ekkert að gera og ég hvet virðulegan forseta til að draga gardínurnar frá svo þingmenn Framsóknarflokksins megi sjá birtuna og sólina úti fyrir. (Gripið fram í.) [Háreysti í þingsal.]

Ég er hingað kominn vegna yfirlýsingar hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar við upphaf þessarar umræðu um að við í Samfylkingunni stjórnuðum Evrópusambandinu og verð af því tilefni að játa að sá orðrómur um völd okkar og áhrif í Samfylkingunni er lítið eitt orðum aukinn. (Gripið fram í.) Ég undrast þó að hv. þingmaður vilji ekki að við á Alþingi Íslendinga setjum í ljósi reynslu okkar ný lög um innstæðutryggingar vegna þess að von sé á nýjum tilskipunum í Evrópusambandinu. Ég hafna því sjónarmiði algjörlega. Við á löggjafarsamkomu Íslendinga, Alþingi, setjum lög um jafnmikilsvert málefni á okkar eigin forsendum og okkar eigin reynslu með hliðsjón af þeim reglum sem við höfum undirgengist. (Gripið fram í.) Það er full ástæða til að við gerum það og gætum vel að því við þá lagasetningu að hún hvetji ekki íslenskar fjármálastofnanir til innlánasöfnunar erlendis. Af því höfum við gríðarlega slæma reynslu og þurfum að gæta vel að.

Undir hin orð þingmannsins má vel taka, það er sjálfsagt að færa fram þá reynslu okkar og sjónarmið um gallana á því kerfi á alþjóðlegum vettvangi, m.a. í Evrópusambandinu. Það er sjálfsagt að þingmenn geri það og það hefur meðal annars seðlabankastjóri gert á fundum (Forseti hringir.) erlendis undanfarið.