139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

frumvarp um innstæðutryggingar -- samkeppnishæfi Íslands -- stjórn fiskveiða o.fl.

[14:30]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar til að taka undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni um störf þingsins og hlutverk ráðherra við að svara fyrirspurnum sem fyrir þá eru lagðar. Ég hef reyndar ekki jafnmiklar áhyggjur af því að framkvæmdarvaldið sé að segja löggjafarþinginu fyrir verkum og sumir aðrir aðilar í samfélaginu. Ég vil benda á að allir ráðherrar eru þingmenn. Aðrir hafa verið að reyna að segja okkur fyrir verkum, Samtök atvinnulífsins hafa verið mjög dugleg við að segja þingmönnum hvað þeir eigi að gera og ríkisstjórninni ef því er að skipta og fleiri hagsmunaaðilar úti í samfélaginu. Auðvitað vilja margir ráða því hvernig við hv. þingmenn 63 högum störfum okkar en á endanum er það í okkar höndum, eins og við vitum öll. Við erum líka misdugleg við að leggja fram fyrirspurnir. Ég sé á útbýtingarblaði að einn og sami þingmaðurinn lagði fram 20 fyrirspurnir á sama fundinum. (Gripið fram í.) Það er hið besta mál en einhver þarf að vinna svörin.

En fyrst ég er farin að tala um Framsóknarflokkinn þá gleður mig mjög að sjá forustusveit hinna léttu drengja Framsóknarflokksins, (Gripið fram í.) og horfi ég þá sérstaklega djúpt í augun á varaformanni flokksins, sem komin er í mikið stuð á vorþingi að tala um samkeppnishæfi þjóða þegar í ljós kemur að Ísland hefur fallið um eitt sæti. Menn virðast ekki muna lengra en það sem gerðist í síðustu viku. Mig langar að rifja upp fyrir þingkarlana í Framsóknarflokknum að á lýðveldistímanum sem telur 67 ár hefur Framsóknarflokkurinn stýrt Íslandi í líklega ein 50 (Gripið fram í: Enda erum við sterkir.) og svo geta menn farið að tala um fortíðina.