139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

frumvarp um innstæðutryggingar -- samkeppnishæfi Íslands -- stjórn fiskveiða o.fl.

[14:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur hef ég áttað mig á því af hverju Samfylkingin og vinstri menn telja sig aldrei vera í ríkisstjórn. Þeir skipta svo oft um nafn og kennitölu á flokkunum og þegar þeir fara yfir þetta og sjá gömlu flokkana eins og Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn, draga þeir alltaf þá ályktun að það séu einu flokkarnir sem hafi stjórnað. En ég fullyrði að í þessi 50 ár sem Framsóknarflokkurinn hefur verið í stjórn hafa einhverjir verið að dólast þar með honum.

Ég man eftir því að ég var í einni ríkisstjórn þar sem ákveðinn flokkur var með okkur og eftir hafa hlustað á hv. þingmann þess flokks tala nokkrum dögum og vikum eftir stjórnarslitin fór ég fram á opinbera rannsókn á því hverjir hefðu verið með okkur í ríkisstjórn því að þeir könnuðust nákvæmlega ekkert við það. Umræðan er svolítið þannig, þeir kannast ekki við eigin gerðir. Það allra versta er himnaríki þeirra, ESB, þeir kunna einhvern veginn ekki á það. Ég er sérstaklega að tala um hv. þm. Helga Hjörvar og hv. þm. Magnús Orra Schram sem halda lofræður um evruna og þykjast ekkert kannast við að við erum í EES og tökum upp tilskipanir. Í landinu er ríkisstjórn sem gætir ekki hagsmuna Íslendinga á þeim vettvangi eins og við gætum gert. Fram hefur komið að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gætir ekki hagsmuna Íslendinga í innstæðutryggingamálinu og þess vegna fer ég fram á það við þingið að það gæti hagsmuna Íslendinga. Ég fer fram á það.

Ég fer líka fram á það við hv. þm. Magnús Orra Schram að hann líti út úr flokksvef Samfylkingarinnar og álitsgjafa þeirra, líti í erlend tímarit og kanni stöðu evrunnar, kanni umræðuna sem þar er í gangi. Ég get t.d. farið með honum í bókabúð á eftir og við getum keypt erlend tímarit, Foreign Affairs, The Economist eða blöð, [Hlátur í þingsal.] erlend dagblöð jafnvel, sem við borgum svo með kreditkortunum okkar fyrir njósnarana, og þá getur hann lesið umræðuna um þennan gjaldmiðil sem hann talar um eins og himnaríki á jörð.