139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[14:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þessi þjóðgarður er nokkuð sem við Íslendingar getum verið, og erum, stolt af. Ég held að allir séu sammála um að hann eigi að vera þjóðgarður fyrir alla Íslendinga. Hann á sér mjög langan aðdraganda, margir komu að þessari vinnu. Það er gaman frá því að segja að hæstv. núverandi utanríkisráðherra var umhverfisráðherra þegar þetta fór af stað, 2003–2004. Þar var skýrt kynnt að ekki ætti að takmarka aðgengi fólks, ekki útivist, ekki veiðar, frá því sem var, enda hafði fólk unnið að eða notið þessa landsvæðis með því markmiði, þá sem nú, að sómi væri að og að menn gengju ekki á þessi auðæfi sem við eigum. Útivistarfélögum var kynnt málið með þeim hætti að þarna ætti almenningur fullan aðgang og fullu samráði var lofað. Þetta var uppleggið, virðulegi forseti, og á þessum forsendum náðist góð sátt og samstaða sem er ekki sjálfsögð um að fara í þessa vinnu.

Það er skemmst frá því að segja, og ég þarf ekki að fara yfir það hér, að þessi útivistarfélög og einstaklingar sem þar eru í forsvari hafa verið mjög ósáttir við skort á samráði. Það skiptir ekki máli í framtíðinni ef við náum sátt um málið núna. Það er auðvitað óheppilegt en skiptir samt ekki máli.

Ég er hér með spurningar fyrir hæstv. ráðherra sem miða að því að fá skýr svör um það hvort almenningur fái aðgang að þjóðgarðinum. Spurningarnar eru á þessa leið, virðulegi forseti:

1. Mun ráðherra beita sér fyrir því að almenningi verði heimilt að tjalda í Vatnajökulsþjóðgarði eins og heimilt er samkvæmt náttúruverndarlögum? Ef ekki, hvers vegna ekki?

2. Telur ráðherra rétt að takmarka umferð hestamanna jafnmikið og gert er ráð fyrir í verndaráætlun? Ef svo er, af hverju?

3. Mun ráðherra halda sig við veiðitakmarkanir á Austursvæði? Ef svo er, af hverju?

4. Mun ráðherra halda sig við að loka Vikrafellsleið og leiðinni um Vonarskarð? Ef svo er, af hverju?

5. Mun ráðherra beita sér fyrir endurskoðun leiða á Jökulheimasvæðinu? Ef ekki, hvers vegna ekki?

Virðulegi forseti. Það verður erfitt í þessari stuttu umræðu að fara djúpt í þetta. Ég mun fylgja þessu eftir ef hætta verður á að menn takmarki aðgengi fólks að garðinum þvert á loforð. Ég tek bara eitt dæmi, það er hægt að taka þau mörg, um fyrirhugað veiðibann sem er ekki með stofnfræðilegum rökum. Það er þvert gegn loforðum. Það voru ekki kallaðir til færustu sérfræðingarnir, ekki dr. Ólafur Nielsen og ekki dr. Arnór Sigfússon, þegar málið var unnið. Ég nafngreini þá vegna þess að í okkar litla þjóðfélagi eru þetta þessir tveir aðilar sem þekkja best til og allir sem þekkja til mála vita það.

Í svörum frá stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs er lagt út frá því að þetta sé svo lítið svæði og svo segir, með leyfi forseta:

„Ekki er líklegt að veiðimenn eltist við bráð sína eftir slíkum leiðum.“ — Þar er vísað til svæðisins sem er bannað.

Virðulegi forseti. Þetta er svæðið þar sem fyrst og fremst er veitt og hefur verið gert um langa tíð, menn veiða ekki á jöklum eða söndum. Það er talað um að menn vilji frekar fá göngufólk og skólahópa á þetta svæði. Síðast þegar ég vissi var fólk ekki niðurnjörvað í eina tegund fólks og veiðimenn eru kannski mestu göngumenn Íslands ef út í það er farið. Reyndar eru líka veiðar alla jafna á þeim tíma sem skólafólk er í fríum.

Því er haldið fram að það sé áratugahefð fyrir því að hreindýraveiðar hefjist ekki fyrr en 15. ágúst. Þarna er um einhvern grundvallarmisskilning að ræða vegna þess að það var gert þegar leyft var að veiða kálfa. Það er ekki leyft lengur. Það er bannað og því var hætt 2005–2006.

Varðandi heiðagæsirnar hefur stofninn aukist frá stríðslokum úr 40 þús. fuglum í 500 þús. Menn hafa í fullri alvöru áhyggjur af bæði ágangi á viðkvæmum svæðum og sömuleiðis því að stofninn sé að verða of stór. Helstu sérfræðingarnir (Forseti hringir.) mæla með aukinni veiði á heiðagæsinni. Þetta litla dæmi sýnir að það þarf að fara betur yfir þessi mál og (Forseti hringir.) ég vonast til þess að svör ráðherra verði þess eðlis að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu.