139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:23]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var mjög mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi. Vernd er nýting. Það þarf að skilja vel á milli á slíkum svæðum, þeirra sem nýta þjóðgarðinn til eigin ferða og persónulegrar upplifunar og svo hinna sem nýta þjóðgarðinn í hagnaðarskyni fyrir atvinnurekstur. Það er ekki sambærileg nýting og verður að taka tillit til þess.

Þeir fyrrnefndu ættu að sjálfsögðu að hafa forgang og ákveðið frelsi sem ætti að vera sem rúmast. Ég styð það að skotveiðimenn geti farið um þjóðgarðinn, þeir eru yfirleitt ekki mikið að veiða í hagnaðarskyni, og að fólk geti tjaldað í þjóðgörðum sem víðar. Akstur og önnur þjónusta ferðaþjónustuaðila sem taka greiðslu fyrir þjónustu sína á að sjálfsögðu ekki að njóta forgangs eða ívilnana á svoleiðis svæðum. Við stöndum frammi fyrir því að við verðum að fara að hugsa um hvort við þurfum ekki að takmarka aðgang að hinni erfiðu náttúru Íslands og miðhálendinu. Allar spár um hugsanlega milljón ferðamenn munu einfaldlega búa til það sem margir kalla „ferðamannamengun“. Sú hugsun að eitthvert svæði hafi ekkert gildi af því það er autt og ekkert fólk þar er röng. Miðhálendi og óbyggðir Íslands hafa gildi í sjálfu sér. Miklu meira gildi einmitt vegna þess að fáir eru þar á ferli. Þegar farið er að leggja 20 rútum við Öskjuvatn er í rauninni búið að eyðileggja upplifunina á því að heimsækja Öskjuvatn sem náttúrusvæði. Þetta er umræða sem við þurfum að fara að búa okkur undir hér á landi. Það má ekki hleypa endalaust fólki að. Þetta hefur gerst í öðrum löndum þar sem menn hafa þurft að taka upp takmarkanir. Ég er ekki endilega talsmaður þess en það er eitt af því sem við verðum að velta upp hvernig er hægt að gera.

Að lokum vil ég segja að það þarf að stækka (Forseti hringir.) Vatnajökulsþjóðgarð og gera hann að hluta stórs miðhálendisþjóðgarðs framtíðarinnar.