139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs.

[15:27]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að heyra sáttatóninn í hv. málshefjanda. (GÞÞ: Voru einhverjar deilur?) Ég vona að hann virði það við mig að ég mun ekki setja fram skoðanir mínar á einstökum leiðum eins og ég gat í upphafi máls míns vegna þess að það mál er í samráðsferli. Hins vegar vil ég segja að í verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs og við allt utanumhaldið verður að koma skipulagi á samgöngumál og leiðakerfi þjóðgarðsins. Það verður kannski aldrei fullkomin sátt um allar leiðir en það er ekki kostur í stöðunni að fara megi eftir öllum leiðum á öllum hugsanlegum farartækjum í öll för sem sjáanleg eru í landinu o.s.frv. Það er óásættanlegt út frá náttúruverndarsjónarmiði, út frá öryggissjónarmiðum og það er opin ávísun á nýja slóðamyndun á hálendinu. Það held ég að ekkert okkar vilji sjá.

Vegna spurningarinnar um tjöldun, sem mér vannst ekki tími til að nefna í fyrri ræðu minni, eru ákvæði um tjöldun í reglugerð um þjóðgarðinn en ekki í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð og geta þessa vegna ekki verið í verndaráætluninni sjálfri. Ég fékk ábendingar í athugasemdum við verndaráætlunina um að það þyrfti að rýmka heimildir fyrir tjöldun. Mér finnst rétt að skoða það. Ákvæði um tjöldun liggur í reglugerð eins og ég sagði. Það þarf að fara yfir reglugerðina í ljósi þeirra ábendinga sem fram hafa komið. Það mun verða gert.

Það er rétt sem þingmaðurinn nefnir, að hann hefði sent mér fimm spurningar á tíunda tímanum í gærkvöldi. Ég vona að ég hafi komist yfir meginatriði þeirra en það gleður mig að hann hyggst vekja máls á þeim aftur í þinginu. Það væri gaman og gott ef fleiri yrðu þá í þingsal.

Náttúruvernd er grundvöllurinn. Ef náttúruvernd er fyrir borð borin í þjóðgarði, alveg sama hvort það er Vatnajökulsþjóðgarður eða einhver annar, þá er þjóðgarðurinn einskis virði fyrir þá sem hans vilja njóta. Náttúruvernd er grundvöllurinn. Það er líka grundvöllurinn þegar svæðisráðið leggur til takmarkanir á veiðum. Ég verð við þeim (Gripið fram í.) sjónarmiðum í ákvörðunum mínum.