139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[17:01]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fréttum síðustu daga í fjölmiðlum hefur verið áberandi umræða um kæru á hendur framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Dominique Strauss-Khan, vegna nauðgunar, ákæru um að hafa nauðgað hótelþernu á hóteli sem hann gisti á í New York. Það hefur vakið mig til umhugsunar um þátt fjölmiðla í jafnréttismálum hvernig sagt hefur verið frá þessu máli því að á nokkrum stöðum er talað um að Dominique Strauss-Khan hafi jú áður lent í vandræðum vegna samskipta sinna við konur og þar fram eftir götunum. Það orðalag sem hefur verið notað í þessu máli hefur truflað mig mjög og hvernig það er lagt upp af tilteknum fjölmiðlum.

Ég kom að því í fyrradag þegar í gangi var umræða um utanríkismál hversu mikilvægt það er þegar fólk verður fyrir ofbeldi, hvort sem eru konur eða börn eða menn eða drengir, hvernig samfélagið talar um það, hvernig samfélagið tekur á ofbeldinu. Ef það tekur ekki á því með réttum hætti, ef það ræðir ekki um það með varfærinni og tillitsamri nálgun og virðingu í garð fórnarlambsins, ef það greiðir ekki úr því hratt og örugglega innan dómskerfis með ákæruvaldinu, þá er það ítrekun á brotinu, þá gerir það brotið og ofbeldið enn verra fyrir þann sem fyrir því verður. Þannig er samfélagið að ítreka brotið gegn fórnarlambinu. Þetta á við um allt ofbeldi, þar með talið kynbundið ofbeldi og nauðganir. Það hefur ítrekað verið bent á það hérlendis, eins og auðvitað víða um heim, sem er staðreynd, hversu fáar t.d. nauðganir enda í kærum, hversu fáar kærur eru síðan dæmdar og hversu mikilvægt það er að við tökum á því sem samfélag með tilliti til brotaþola, vegna þess að þetta ítrekar, eins og ég sagði áðan, brotið gagnvart þeim sem það þolir. Það sama á við hvernig við ræðum um hlutina.

Þess vegna vildi ég í upphafi máls míns vekja sérstaka athygli á fjölmiðlum og þætti fjölmiðla þar sem ég vil í rauninni meina að það sé þörf á jafnréttisfræðslu innan fjölmiðla og nefndin beinir því sérstaklega til velferðarráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að huga að því að gerð verði sérstök úttekt eða könnun á fjölmiðlum og jafnrétti. Nefndin telur mikilvægt að fjölmiðlar hafi skýra jafnréttisáætlun og aðgerðaáætlun um það hvernig eigi vinna gegn staðalímyndum kynjanna. Jafnréttismál fjölmiðlanna snýst ekki bara um hversu miklu minna og sjaldnar er talað við konur en karla, hversu miklu sjaldnar er leitað til þeirra, hvort heldur er sem sérstakra álitsgjafa, vegna pólitíkur eða annars, heldur snýst það einmitt líka um þessa alvarlegustu birtingarmynd misréttis kynjanna sem er kynbundið ofbeldi og hittir þolendur kynbundins ofbeldis beint í hjartastað.

Í þessu samhengi langar mig líka að benda á klausu nefndarinnar þar sem hún telur „vert að huga að völdum, áhrifum og framgangi kvenna innan fjölmiðlanna sjálfra og hvernig jafnréttismarkmiðum er framfylgt á vinnustöðum á sviði fjölmiðlunar“.

Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni að það eigi einmitt að framfylgja aðgerðaáætlun sem varðar kynbundið ofbeldi og hvernig tekið er á því. Það er auðvitað líka fagnaðarefni hin svokallaða austurríska leið, sem hefur birst hér í frumvarpi innan þingsins, þar sem ofbeldismaður er fjarlægður af heimili en fórnarlambið ekki, og önnur mál er varða vændi sem er sérstaklega tekið á í aðgerðaáætluninni líka. Eins og ég segi, þetta er alvarlegasta birtingarmynd misréttisins og það er skylda okkar allra að tryggja að samfélagið ítreki ekki brotið, ítreki ekki þjáninguna og bæti við sársaukann með því að tala ekki af nógu mikilli þekkingu og skilningi um þessi mál.

Í nefndarálitinu er tekið á ýmsum þáttum eins og komið hefur fram í þeirri góðu umræðu sem hér hefur farið fram. Önnur birtingarmynd misréttisins er á vinnumarkaði og sést í launamisrétti kynjanna sem ýmsir hafa komið að hér og nefndin telur að sjálfsögðu mikilvægt að útrýma launamisrétti kynjanna og brýnir stjórnvöld til að leita allra leiða til þess. Það er m.a. komið inn á vegvísi um jafnrétti og jafnréttisvottun og verkefni því tengd sem átti að ljúka fyrir 1. janúar 2010 og verður nú að hraða. Einnig áréttar nefndin mikilvægi þess að gera sérstaka úttekt á launamisrétti kynjanna í þeim starfsstéttum þar sem annað kynið er ráðandi. Eins og við vitum er íslenskur vinnumarkaður mjög kynskiptur eftir starfsgreinum og það er ein af afgerandi forsendum fyrir launamisrétti kynjanna. Auðvitað er brýnt að rannsaka heildstætt þetta launamisrétti og taka á því nokkuð hraustlega, því að jafnvel þótt við höfum rætt um þetta í þó nokkuð mörg ár hreyfast þau mál enn þá allt of hægt.

Annað sem tekið er á er fæðingarorlof þar sem liggur fyrir skýrslubeiðni frá félags- og tryggingamálanefnd til hæstv. velferðarráðherra um hvaða áhrif niðurskurðurinn hefur haft á töku fólks á fæðingarorlofi, sérstaklega feðra. Hins vegar er ýmislegt sem þyrfti að kanna og greina betur í þessum efnum. Við Íslendingar höfum oft vitnað í lögin um fæðingarorlof og framkvæmd þeirra hérlendis sem einhvers konar flaggskip jafnréttisstefnu okkar og það hversu framarlega við erum þó komin í samanburði við ýmsa aðra þótt enn sé langt í land. Það er auðvitað mjög alvarlegt mál ef feður eru að hætta við að taka fæðingarorlof, það er alvarlegt mál bæði fyrir konur og karla, mæður og feður, og það er mikilvægt að við gerum okkur skýra grein fyrir stöðunni eins og hún er.

Ég, eins og margir fleiri hér inni held ég í öllum flokkum, á þá draumsýn að við endum fyrr en síðar með tólf mánaða fæðingarorlof alls en ekki níu mánuði eins og nú er svona til samræmis við það sem gerist best. Þegar við verðum komin úr þessari mestu efnahagslegu krísu okkar verður það vonandi eitt af okkar fyrstu verkum að tryggja enn lengra fæðingarorlof á þessum viðkvæmu fyrstu tímabilum lífs ungviðis þjóðar okkar og að tryggja enn betur rétt mæðra og feðra og allra foreldra í þessum efnum.

Það er líka rætt, eins og hér hefur komið fram, um svokallað fjölþætt jafnrétti þar sem nefndinni var bent á að jafnréttishugtakið hefði auðvitað víðari skírskotun en túlkun þess í jafnréttislögum gefur til kynna, við getum talað um jafnrétti, ekki bara kvenna og karla, heldur jafnrétti og full mannréttindi fatlaðra, samkynhneigðra, fólks af erlendum uppruna o.s.frv. Þetta eru mjög góðar ábendingar.

Mig langar líka að benda að reynslan kennir okkur — og nefndin tekur í rauninni þá afstöðu að það þurfi að sjálfsögðu að taka þetta mjög alvarlega og við bíðum frekari verkefna í þessum málum á öðrum sviðum með öðrum frumvörpum þar sem þessi jafnréttisáætlun taki jú bara á jafnrétti kvenna og karla — það sem mig langaði að benda á í þessu samhengi er að reynslan sýnir okkur að þar sem jafnrétti kynjanna hefur hlotið hvað mestan framgang eða er komið hvað lengst, ég held þó að segja megi að hvergi sé það komið á til fulls, haldast svolítið í hendur mannréttindi og réttindi ýmissa annarra hópa, svo sem fatlaðra, samkynhneigðra o.s.frv. Það er því gott að hafa í huga eins og hér hefur komið fram líka að jafnrétti kynjanna eða kvenfrelsi snýst ekki bara um konur, það snýst líka um karlmenn. Og bara það, eins og ég nefndi um fæðingarorlofið áðan, að nú sjái mín börn þegar þau alast upp feður og karlmenn ganga um með barnavagn út um allan bæ, sem gerðist ekki þegar ég var barn, alla vega man ég ekki eftir því, hvað þá enn eldra fólk — bara það breytir samfélagi, breytir hugsun okkar og viðhorfum til góðs sem ýtir þá undir jafnrétti.

Hvað fjölþætta jafnréttið varðar telur nefndin samt og vill leggja til þetta sérstaka verkefni um stöðu fatlaðra kvenna. Ég tel það mjög brýnt og mikilvægt og nefndin hefur auðvitað líka almennt í sínu starfi lagt áherslu á bætt réttindi fatlaðs fólks og full mannréttindi. Fatlaðar konur eru í miklum áhættuhópi hvað varðar ofbeldi, meiðsli og misþyrmingar og því er mjög mikilvægt að kanna stöðu þeirra sérstaklega.

Í heild má segja að þessi áætlun í jafnréttismálum ber auðvitað með sér að leggja eigi enn meiri þunga og vigt í jafnréttismál, sem er gríðarlega jákvætt skref fram á við, og það eru ýmsir aðrir þættir sem lúta að þeim skrefum til þess sem hér er tæpt á. Það er sjálfsagt og rétt, eins og hér er lagt til, að það komi svokallað jafnréttismat á frumvörp eða gátlisti um jafnrétti, hvaða áhrif það hafi á jafnrétti þegar frumvörp verða að lögum. En eins og komið hefur fram áður í dag er auðvitað ankannalegt, svo ekki sé meira sagt, að svo mikið púður fari einfaldlega í það að reyna að fá fólk, opinberar stofnanir og fyrirtæki til að fara að lögum. Þetta hefur verið rætt nokkuð í nefndinni. Hlutfall kynja við skipun í nefndir, ráð og stjórnir er í landslögum, kyngreining upplýsinga er í lögum. Það að það sé svona mikið mál að tryggja að fólk fari að þeim lögum er auðvitað umhugsunarefni. En það verðum við að gera. Svona er raunveruleikinn og veruleikinn eins og hann blasir við. Það verður því að fara í þau verkefni sem lúta að þessu og auka bæði þekkingu og skilning og meðvitund um þau lög sem gilda í landinu í þessum efnum.

Það hefur verið komið nokkuð inn á dagvistunarmál hér í dag. Ég ætla að leyfa mér taka heils hugar undir með þeim sem þau hafa rætt. Þetta er gríðarlega mikið ekki bara fjölskyldumál og barnamál, heldur jafnréttismál. Svo ég tali fyrir sjálfa mig fannst mér ég hafa unnið í lottóinu þegar sonur minn fékk fyrir skömmu pláss á leikskóla. Og talandi um fjölskylduvæna vinnustaði virðist það í praxís vera stefna Alþingis að hér eigi ungar konur á barneignaraldri ekki að vera vegna þess að það er gríðarlega erfitt að sameina fjölskyldu með ung börn, eins og bæði konur og karlar hér innan húss þekkja, og vinnuna hér. Þar held ég að ég hljóti að tala bæði fyrir þingmenn og starfsmenn, sem oft gleymast í þessari umræðu og er talið ekkert mál að séu hér langt fram á kvöld og eigi síðan að vinna að ýmsum verkefnum og skýrslugerðum og fleiru eftir að við þingmenn erum þó farin heim. Nóg um það að sinni. Þetta er eitthvað sem snertir okkur öll hvar svo sem við vinnum.

Varðandi athugasemd um að kyn eigi ekki að ráða hvort við fáum vinnu, það er alveg hárrétt. Við erum einmitt í þessum jafnréttisleiðangri vegna þess að reynslan hefur verið og var sú til langs tíma að karlmenn gengu jafnvel fyrir þótt þeir væru ekki hæfari en konan sem sótti um og jafnvel langt í frá.

Það er að sjálfsögðu ekki nóg að kanna og greina og mæla og rannsaka, heldur að gera. Jafnrétti krefst aðgerða. Stundum blasir það við, jafnvel þótt engar greiningar liggi fyrir, að einhverjar aðgerðir koma konum verr en körlum. Ég nefni þá sérstaklega t.d. niðurskurð í heilbrigðisþjónustunni sem bitnaði mjög harkalega á konum. Á sama tíma er mikið talað um vegaframkvæmdir hér og þar og hverjum gagnast það helst vinnulega séð? Jú, það vitum við væntanlega öll. Það á líka að vera innbyggt í okkur öll, jafnvel þótt ekki liggi fyrir greiningar og mælingar, að hugsa með þessum hætti. Í því sambandi vil ég auðvitað líka fagna sérstaklega þeirri vinnu og áætlun sem hefur verið lögð fyrir um kynjaða hagstjórn og kynjaða fjárlagagerð sem kemur inn á akkúrat þetta.

Að lokum þetta. Ég kom mjög seint að þessari vinnu vegna þess að ég var einmitt í fæðingarorlofi og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir leiddi starfið í þessu, en ég var þó svo heppin að fá að koma að því á lokastigum og mig langar til að þakka nefndinni fyrir frábært samstarf og mjög svo málefnalega og góða umræðu. Það var virkilega gaman að fá að taka þátt í þessu starfi þótt það væri bara rétt undir lokin á þeirri miklu vinnu sem nefndin hafði unnið og hefur unnið í þessum efnum. Það gleðilega er að sjálfsögðu að fólk allra flokka vill jafnrétti á Íslandi og ekki seinna vænna.