139. löggjafarþing — 129. fundur,  18. maí 2011.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

707. mál
[17:41]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta þekki ég ekki vel en geri ráð fyrir að það verði úrvinnslumál þegar til þessara leiðsagnarnámskeiða kemur samkvæmt lögunum. Þau hafa auðvitað staðið hér samkvæmt reglugerðum um nokkurt skeið. Ég vil taka undir það með hv. þingmanni að það er mikilvægt — eins og kom fram í fyrri ræðu kom þessi spurning fyrir nefndina — að menn kunni á viðkomandi svæði. Þetta eru stór og mikil svæði og það getur verið villugjarnt á heiðum uppi á Austurlandi eins og menn vita af reynslu eða úr bókmenntunum eða frásögnum. Þessar veiðar eru með öðrum hætti en aðrar veiðar, það skiptir mjög miklu máli að staðþekking sé algjörlega örugg. Leiðsögumaður ber ekki bara ábyrgð á sjálfum sér heldur ber hann ábyrgð á hópnum og það er í fyrsta lagi skylda hans að koma hópnum klakklaust á veiðar en ekki síður að koma honum af veiðum og til þess er staðþekkingin algjörlega þörf.