139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[10:32]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Þingið og þjóðin hefur beðið eftir nýjum frumvörpum um breytingar á stjórn fiskveiða og ríkisstjórnin hefur núna í rúma átta mánuði haft málið hjá sér í súperþingmannahópnum sínum og hjá ráðherrunum án þess að treysta þinginu eða þjóðinni fyrir því að fá að fylgjast með. Nú er boðað í tengslum við kjarasamninga að það eigi að afgreiða hér frumvarp þegar einungis örfáir dagar eru eftir af þingstörfunum þangað til sumarhlé hefjast.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hvenær fáum við að sjá frumvörpin? Hvenær koma þau fram? Hvernig leggst það í hæstv. forsætisráðherra þegar enginn stuðningur er við þær hugmyndir sem þó hafa verið kynntar frá sjómönnum, fiskvinnslunni, smábátaútgerðarmönnum, útgerðarmönnunum sjálfum, þeim sem eru í stórútgerðinni, eða þeim prófessorum sem hafa helgað sig því að fara ofan í fiskveiðistjórnarkerfið og það sem hefur mest og best áhrif á efnahag okkar Íslendinga? Stendur hæstv. forsætisráðherra enn við það að ætla að klára á örfáum dögum það sem hún sjálf kallar grundvallarbreytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu eða verða málin einungis lögð fram? Hvernig stendur á því að það er sagt við okkur í þinginu að þingflokkar stjórnarflokkanna hafi afgreitt málin frá sér en þau eru ekki lögð fram? Venjan er að þegar þingflokkar hafa afgreitt stjórnarfrumvörp eru þau strax lögð fram í þinginu. Eða var verið að segja fólki ósatt um að þingflokkarnir væru búnir að klára málin? Voru enn þá lausir endar?

Þetta mál er orðið slíkt klúður að það eru drög að frumvarpinu úti um allt þjóðfélag, í fjölmiðlum úti um allar byggðir landsins. Ég hef verið á fundum þar sem frumvarpsdrögin fljúga á milli manna en að ráðherrann þori að koma með frumvarpið sjálft inn í þingið og tala fyrir því, að einhver vilji taka ábyrgð á hugmyndunum, (Forseti hringir.) hefur ekki enn gerst. Hvenær gerist það, hæstv. forsætisráðherra?