139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á von á því að þessum frumvörpum sem beðið er eftir með mikilli eftirvæntingu verði dreift í dag, eftir því sem ég hef heyrt. Ég vona að það standist. Það er alveg eðlilegt að þetta mál hafi tekið tíma. Það hefur að mínu viti að vísu tekið of langan tíma, frá september og þar til núna, að klára þessi mál en ég vona að þau komi sem sagt fram í dag. Það er ekkert skrýtið þó að skiptar skoðanir séu um þetta stóra og mikla mál og einstakar greinar frumvarpsins. Ég held að það sé alveg eðlilegt en ég held að stærsti hluti þjóðarinnar sé sammála grundvallaratriðunum og þeirri kerfisbreytingu sem fram kemur í þessum frumvörpum. Það er verið að innkalla og endurúthluta aflaheimildum og það er í samræmi við stjórnarsáttmálann. Það er verið að opna kerfið sem hefur verið allt of lokað og sniðið að sérhagsmunum en ekki almannahagsmunum. Það er verið að auka það að þjóðin fái meiri arð af sjávarauðlindinni (Gripið fram í: Það er rangt.) en verið hefur og það er verið að opna kerfið þannig að fleiri geti nýtt sjávarauðlindina en kvótahafarnir. (Gripið fram í: Það er rangt.) Allt eru þetta lykilatriði; jafnræði, atvinnufrelsi og nýliðun.

Það er ekkert skrýtið þótt það séu skiptar skoðanir um einstaka atriði í frumvarpinu. Ég tel mikilvægt að afgreiða minna frumvarpið, um strandveiðar og byggðakvóta, á þessu þingi en ég tel líka mikilvægt að stærra frumvarpið, um kerfisbreytinguna, komi til umræðu í þinginu og fari til nefndar. Þá fær sjávarútvegsnefnd málið til meðferðar og vonandi getum við þá afgreitt það á haustþinginu eða í september.