139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

frumvörp um stjórn fiskveiða.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að það er almenn óánægja með þetta kvótakerfi í þjóðfélaginu og hefur lengi verið. Fólkið hefur verið að kalla (Gripið fram í: Þú ert að alhæfa.) eftir breytingum á því. Það er það kall sem við erum að svara og það sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður vilji hafa kerfið eins og það er, að örfáir kvótahafar geti fénýtt það og selt heimildir (Gripið fram í.) á okurverði til leiguliða. (Gripið fram í.) (BjarnB: Hvaða rugl er þetta?) Það er bara þannig. (Gripið fram í.) Á hvað eru leiguheimildirnar seldar? (Gripið fram í.) Kílóið er selt á um 300 kr. en þeir þurfa sjálfir að borga fyrir það 6,50 kr. Er nokkuð skrýtið þó að við viljum breyta þessu kerfi og opna það fyrir fleirum þannig að fleiri geti nýtt sjávarútveginn en örfáir kvótahafar? (Gripið fram í.) Ég veit að sjálfstæðismenn eru mjög órólegir yfir því að það eigi að fara að breyta hér kvótakerfinu (Gripið fram í: Þetta er rangt.) sem hefur [Háreysti í þingsal.] verið kallað eftir. (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gefa forsætisráðherra hljóð.)

Þó að sjálfstæðismenn og LÍÚ vilji (Forseti hringir.) hafa kerfið óbreytt (Gripið fram í: Kjaftæði.) er það bara þannig (Forseti hringir.) að meiri hluti þjóðarinnar vill breytingu á (Forseti hringir.) því. [Frammíköll í þingsal.]