139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

uppsagnir á Herjólfi.

[10:40]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Vestmannaeyingar hafa að undanförnu ekki farið varhluta af því að Eimskip virðist reka einstaklega sérstaka starfsmannastefnu. Það er ekki langt síðan þremur þernum var sagt upp á Herjólfi vegna þess að þær vildu fá að sýna verkalýðsfélaginu sínu nýjan samning um breytt verksvið.

Nú hefur Eimskip tekið sig til og sagt upp tveimur af reyndustu starfsmönnunum í afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum. Ástæðan fyrir því er sú að þær vildu hafa eitthvað um það að segja hvernig þær löguðu sig að breyttum vinnutíma og vildu undirbúa breytingarnar gagnvart fjölskyldum sínum og jafnvel hafa eitthvað um vinnutíma sinn að segja. Í annað skipti á stuttum tíma hefur Eimskip gripið til þess ráðs að segja upp konum sem sinna þjónustu við farþega, bæði um borð og í landi. Ástæðan virðist fyrst og fremst vera sú að þessar konur hafa, að mati stjórnenda, ekki brugðist nógu hratt og vel við hugmyndum um breytt vaktafyrirkomulag.

Það hefur verið alveg geysilega mikið álag á starfsmönnum Herjólfs eins og við höfum fylgst með í gegnum fréttir og oft mikill pirringur gagnvart mikilli óvissu í þessum málum. Þótt ég viti að Herjólfur falli ekki undir hæstv. velferðarráðherra fer hann þó með málefni sem varða vinnumarkaðinn. Ég hefði áhuga á að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því að við fullgiltum samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um þá þætti sem eru málefnalegir til að segja fólki upp störfum.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir er 1. flutningsmaður þingsályktunartillögu um fullgildingu á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Að auki flytjum við hana, ég, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Mörður Árnason, Ásmundur Einar Daðason, Þráinn Bertelsson o.fl. Ég bendi líka á að hv. þm. Atli Gíslason lagði á sínum tíma fram frumvarp sem byggði á sömu hugmyndafræði, (Forseti hringir.) um að það þyrftu að vera málefnalegar ástæður fyrir uppsögn, eða rekstrarlegar. Ég á erfitt með að sjá að þessar uppsagnir (Forseti hringir.) mundu uppfylla þau skilyrði.