139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

lánafyrirgreiðsla til sjávarútvegsfyrirtækja.

[11:05]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hæstv. ráðherra tek ég fram að ég var ekki einungis að tala um veðsetningar á óveiddum fiski, eins og hæstv. ráðherra talaði um. Í fyrirliggjandi frumvarpsdrögum er lagt blátt bann við beinum og óbeinum veðsetningum í sjávarútvegi. Þetta þýðir að verði frumvarpið að lögum verður ekki um að ræða neina lánafyrirgreiðslu bankanna til sjávarútvegsfyrirtækjanna og sérstaklega ekki til nýrra aðila sem vilja hefja útgerð, nýliða í greininni. Vilji þeir hefja slíkan rekstur geta þeir ekki veðsett þær eigur sem þeir hafa og eru í fyrirtækjunum til tryggingar á þeim lánum sem þeir þurfa til að geta ráðist í þennan atvinnurekstur. Þetta kemur algjörlega í veg fyrir (Forseti hringir.) að það verði einhver nýliðun í sjávarútvegi nema af hálfu þeirra (Forseti hringir.) sem hafa fyrir fullar hendur fjár, auðmanna. (Forseti hringir.) Kerfið verður algjörlega lokað fyrir öllum öðrum.