139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

334. mál
[11:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum hér atkvæði um áætlun í jafnréttismálum til næstu fjögurra ára. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fastanefndum Alþingis sem tóku áætlunina til umfjöllunar og sendu álit til hv. félags- og tryggingamálanefndar. Þar vann nefndin öll sem ein að því að betrumbæta ýmsar af tillögunum. Almennt vorum við ánægð með áætlunina þó að við gerðum fjölmargar athugasemdir og lagfærðum það sem við töldum gefa betri árangur í jafnréttisbaráttunni á Íslandi. Ég vona að þessi vinna í þinginu hafi verið okkur öllum þingmönnum brýning til að fylgja eftir og fylgja jafnréttislögum og að við getum veitt framkvæmdarvaldinu gott aðhald í því að þessari áætlun verði framfylgt.