139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það er mjög kærkomið að fá tækifæri til að skoða íslenska skattkerfið í alþjóðlegum samanburði eins og skýrsla OECD býður upp á. Þá kemur nefnilega annað í ljós en kórinn hér heima hefur sungið undanfarin ár. Þá kemur í ljós að skattbyrði, eða skattfleygurinn, ef við höldum okkur við hann hér, er enn með því lægsta sem þekkist meðal Vestur-Evrópuríkja.

Skýrslan hin mikla, sem hv. þingmaður vitnar til, er að vísu einar 500 blaðsíður og ég skal fúslega játa að ég hef ekki lesið hana alla. En það er gagnlegur kafli í henni sem fjallar um alþjóðlegan samanburð og þingmönnum til hagræðingar hef ég dreift hér nokkrum myndum úr þeim hluta skýrslunnar. Sennilega hefur enginn nema málshefjandi lesið allar 500 blaðsíðurnar. (Gripið fram í.)

Það er gagnlegt að skoða þennan samanburð, svonefndan skattfleyg, og sá samanburður þjónar aðallega tvenns konar tilgangi, þ.e. annars vegar að skoða hann sjálfan sem slíkan og það hversu langt bilið er á milli þess sem launagreiðandinn þarf að greiða fyrir hvern launþega og þess sem launþeginn ber úr býtum. Hins vegar fjallar skýrslan um það hvernig þessi munur er eftir launaupphæð og félagslegri stöðu. Þetta er lýsandi samanburður á margan hátt en þó verður að hafa í huga að hann er að sjálfsögðu ekki einhlítur og margt vantar, og það skiptir máli hvernig kerfin eru útfærð á ýmsan hátt.

Einföldustu myndina af þessum nafntogaða skattfleyg má sjá mynd 1 í skýrslunni, í þessum alþjóðlega samanburðarkafla, en hún sýnir skatthlutdeild af heildarlaunakostnaði hjá einhleypum einstaklingi á meðallaunum árið 2010. Þar er hlutdeildin, eins og þingmenn sjá, hæst í Belgíu. Á Íslandi er hún sú þriðja lægsta af Evrópuríkjum. Einungis Írland og Sviss eru með lægri skattfleyg á árinu 2010. Það er nú öll hin hroðalega skattalega áþján sem hv. málshefjandi var að tala um hér áðan.

Á myndinni má einnig sjá hvernig fleygurinn skiptist milli tekjuskatta, tryggingagjalda launþega og launagreiðanda. Það sýnir strax hversu geysilega mismunandi myndin er innan einstakra ríkja, hversu misþungt einstakir skattstofnar vega. Í skýrslu OECD er rakið hvernig skattfleygurinn hefur breyst frá því árið 2010, þar er samanburður milli ára, og það er rétt að hækkunin er þá mest á Íslandi upp á 3,3%. En úr hverju samanstendur hún? 2,2% eru vegna hækkunar tryggingagjaldsins, við urðum að horfast í augu við stóraukið atvinnuleysi eftir efnahagshrunið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og samkomulag náðist um að mæta þeim útgjöldum með því að hækka tryggingagjald. Það skýrir stærstan hluta þess að Ísland hækkar þarna á listanum. Hitt eru 0,4% vegna tekjuskattsbreytinga, það er nú allt og sumt. Síðan gerist það að útvarpsgjaldið er nú reiknað inn í fyrsta sinn og það skýrir afganginn af hækkuninni.

Í skýrslunni er rakið hvernig skattar og bætur koma við afkomu fjölskyldna eftir tekjum og aðstæðum. Hún raðast eftir skattbyrði hjóna með tvö börn sem annað er með meðallaun en hitt með 2/3 af meðaltekjum. Hver er staðan þá fyrir Ísland? 10 af 18 Evrópuríkjum eru með meiri skattbyrði fyrir þennan hóp en hér. Ef við tökum einstætt foreldri á Íslandi, með tekjur sem nema 2/3 af meðaltekjum, eru aðeins þrjú Vestur-Evrópuríki með hagstæðara hlutfall en Ísland, það eru Sviss, Lúxemborg og Írland. Þetta eru staðreyndir, þetta er alþjóðlegur samanburður og ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir að gefa mér tækifæri til að vekja athygli á því hversu hagstæð útkoman er enn fyrir meðalhópana í íslenska skattkerfinu.

Ef við tökum Norðurlöndin, og það eru upplýsingar um það í ritinu sem ég afhenti þingmönnum, hvað kemur þá í ljós? Ef við berum Ísland saman við Norðurlöndin, sem við viljum væntanlega helst bera okkur saman við, og tökum þá fyrst einstætt foreldri að teknu tilliti til barnabóta sker Ísland sig úr og er lægst Norðurlandanna fyrir þennan meðaltekjueinstakling með tvö börn. Sama gildir um hjón með tvö börn, annað með meðaltekjur og hitt 67%. Þá er Ísland áfram lægst þangað til Svíþjóð og Ísland hittast á árinu 2010. Þetta er hinn alþjóðlegi samanburður á grundvelli hinna viðurkenndu vísinda um skattfleyginn og hann sýnir að umhverfið á Íslandi er að þessu leyti enn eitt það allra hagstæðasta sem þekkist í Evrópu og innan OECD.