139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er vont að hækka skatta, einkum á erfiðum tímum. En þrátt fyrir þær aðgerðir eru skattar á Íslandi, eftir þær, með því lægsta sem gerist í okkar heimshluta, og það er vel.

Þegar við skoðum hinn alþjóðlega samanburð hjá OECD er það ekki bara hvað varðar skatta á laun þar sem við erum, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið yfir, í þriðja neðsta sæti af löndum Vestur-Evrópu, heldur er það líka þegar við skoðum samanburð á tekjuskatti fyrirtækja, þar sem við erum í 26.–28. sæti af rétt liðlega 30 samanburðarríkjum, þar sem tekjuskattsprósentan hér í löndunum allt í kringum okkur er iðulega um það bil fjórðungi hærri. Og þetta er gott, það er gott að hér séu skattar hagstæðari vegna þess að það er mikilvægt að hafa hvetjandi umhverfi að þessu leyti. En við gengum allt of langt í því. Í góðærinu var farið í algjörlega óraunsæjar skattalækkanir og það sem nú eru kallaðar skattahækkanir felur fyrst og fremst í sér að afturkalla þær óraunsæju lækkanir.

Þá segir frjálshyggjan: Já, en lækkið þið bara skattana, þá eflast tekjustraumarnir. En hvernig er það þegar við kíkjum hér í kringum okkur? Þar eru tekjustraumarnir sannarlega sterkari, miklu sterkari á öllum hinum Norðurlöndunum, en þar þurfa menn engu að síður að taka umtalsvert stærri hluta af launakostnaði í sameiginlega sjóði en við erum að gera með okkar veiku tekjustrauma, vegna þess að það er einfaldlega þannig að til þess að reka velferðarkerfi og til þess að búa almenningi lífskjör sem eru samkeppnishæf á alþjóðlegum mörkuðum þarf að halda uppi eðlilegu skattstigi. (Forseti hringir.) Það gerðum við ekki í góðærinu en það gerum við sem betur fer nú og erum um leið samkeppnishæf.