139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:42]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Að minnsta kosti 60 þúsund heimili eiga erfitt með að ná endum saman og ástæðan er margþætt þó að margir vilji alfarið kenna þyngri skattbyrði um. Aðrar ástæður vega þó þyngra eins og launalækkanir og kaupmáttarrýrnun. Ríkisstjórnin hefur þar kosið að fara blandaða leið skattahækkana og niðurskurðar til að takast á við hrun skatttekna eftir bankahrunið. Reynslan sýnir að niðurskurður til að mæta hruni skatttekna í fjármálakreppu dýpkar kreppuna.

Allt útrásartímabilið jókst ójöfnuður meira hér á landi en almennt í Evrópu. Þrjú skattþrep voru innleidd 2010 til að auka jöfnuð og tekinn var upp auðlegðarskattur á þá ríku.

Virðulegi forseti. Strax eftir hrun gerðum við mistök, að leggja ekki skatta á útstreymi fjármagns, inngreiðslur í lífeyrissjóði og á tekjuauka útflutningsfyrirtækja vegna mikillar gengislækkunar krónunnar. Seðlabankinn ætlar loks að skattleggja útstreymið á uppboðsmörkuðum. Í dag ná lífeyrissjóðirnir ekki hærri ávöxtun en sem nemur fjármagnskostnaði ríkis og sveitarfélaga. Það eru því engin rök fyrir því að skattleggja ekki inngreiðslur í sjóðina.

Skattur á tekjuauka útflutningsfyrirtækja eftir gengishrunið hefði dregið verulega úr þörfinni fyrir skattahækkanir og niðurskurð. Ég hvet enn og aftur til þess að lagðir verði skattar á inngreiðslur í lífeyrissjóði og á tekjuaukningu útflutningsfyrirtækja vegna gengishrunsins um leið og tækifærið verður nýtt til þess að létta skattbyrðina á heimilum landsins.