139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

skattbyrði og skattahækkanir.

[11:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Sjálfstæðismenn lögðu fram tillögur í efnahagsmálum á þingi í fyrrahaust eða fyrir ári eða svo undir yfirskriftinni „Gefum heimilunum von“. Við skulum gefa heimilunum von, sögðu sjálfstæðismenn og sú von fólst helst í því samkvæmt tillögum þeirra að stökkva aftur til baka til ársins 2008 þegar flokkurinn hrökklaðist frá völdum, m.a. í skattamálum. Í þeim tillögum kemur fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að kalla til baka allar skattbreytingar sem hafa orðið frá hruni. (TÞH: Við munum gera það.) Þeir lofa því, og það er ítrekað hér af hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni, að stökkva til baka til þess tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn fór frá völdum hvað varðar áherslu í skattamálum.

Hvernig var það nú? Við skulum rifja það aðeins upp. Hvernig gerðist það að á öllum valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn (Gripið fram í: Og Samfylkingar.) lækkaði skattbyrði hátekjufólks um ríflega þriðjung, þeirra hæstlaunuðu í landinu, en skattbyrði meðaltekjufólks og láglaunafólks hækkaði? Þetta eru tölur sem liggja fyrir og þetta er sú staða sem Sjálfstæðisflokkurinn lofar heimilunum — eða hótar heimilunum — undir yfirskriftinni „Gefum heimilunum von“. (Gripið fram í.)

Skattbyrði lágtekjuhópa og reyndar meðaltekjuhópa sömuleiðis á þessum tíma jókst síðasta áratuginn fyrir hrun. Hún jókst, þetta eru tölur og staðreyndir sem blasa við hverjum sem vill skoða. Þetta er sú von sem Sjálfstæðisflokkurinn þykist ætla að og er að gefa. Hann gefur þetta loforð eða hótar þessu öllu heldur. Hann hótar fólki því að fara til baka til þessa kerfis. Ég sting upp á því við hv. þingmann, málshefjanda, að hann biðjist undan frekari umræðu um skattamál hér og komi aftur þegar hann hefur betri málstað að verja.