139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ég nefndi ekki þá þætti sem snúa að lífeyrismálum almennt enda er um þá fjallað í yfirlýsingunni en það er ekki tekið á þeim í þessu frumvarpi þar sem eingöngu er komið inn á málefni lífeyrissjóðanna, reyndar með tvennum hætti; annars vegar hvað varðar Starfsendurhæfingarsjóð og hins vegar fjármögnun vaxtaniðurgreiðslna.

Fyrirheitin í yfirlýsingunni og staða þessara gríðarstóru mála, sem eru lífeyrismálin og framtíðarfyrirkomulagið þar, er þannig að annars vegar starfar stór nefnd að því að teikna upp framtíðarfyrirkomulag þessara mála. Þar er góð samstaða um að stefna beri að einu samræmdu, sjálfbæru lífeyriskerfi fyrir landsmenn til framtíðar litið. Hins vegar starfar sérhópur um málefni Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og þá stöðu sem uppi er þar, bæði gagnvart A-deild og B-deild. Ég hef bundið vonir við að niðurstaðan af starfi beggja þessara hópa liggi fyrir nú sem fyrst á næstu mánuðum þannig að áætlun um framtíðarfyrirkomulag þessara mála verði teiknuð upp. Hún tekur þá á þremur þáttum, getum við sagt: hvernig við leggjum upp í að hefja inngreiðslur um leið og við ráðum við inn á B-deildina til að mæta þeim vanda sem þar er, hvaða ráðstafanir þarf að gera gagnvart A-deildinni þannig að ekki vaxi á henni halli og hún verði sjálfbær, og þar kemur fleira til greina en það eitt að hækka iðgjöld að sjálfsögðu og eru til skoðunar hugmyndir um slíkt.

Varðandi tilmæli eða bréf Fjármálaeftirlitsins mun stjórn LSR að sjálfsögðu svara því. En bæði stjórn LSR og fjármálaráðuneytið hafa verið þeirrar skoðunar og er að fullar heimildir séu til þess, á grundvelli bráðabirgðaráðstafana um að halli á lífeyrissjóðum megi tímabundið vera 15%, að halda sjó í þeim erfiðleikum sem við förum nú í gegnum. Þannig var upp lagt og í þeirri trú (Forseti hringir.) hafa menn ekki gripið til ráðstafana þó að hallinn sé yfir þeim tíu prósentum sem áður var miðað við, reyndar nálægt 12% á A-deildinni og heldur lækkandi.