139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir yfirferð yfir málið sem við ræðum hér, ráðstafanir í ríkisfjármálum í sambandi við kjarasamninga. Mig langar að spyrja hann að því hve mikið hafi tapast af persónuafslætti sem var jú verðtryggður áður — svo var hætt við þá verðtryggingu í kjölfar hrunsins og nú er hún tekin upp aftur — vegna þess að þetta var mikið áherslumál hjá ASÍ þó að ég sé ekki endilega að gæta hagsmuna þeirra beint, en þetta kemur inn á skattlagningu og alveg sérstaklega lægst launaða fólksins.

Ég spyr líka hvort það hafi verið metið hve mikið þessir kjarasamningar auki á atvinnuleysið. Það er á hreinu að þessar miklu álögur, sérstaklega eingreiðslurnar, 50 þúsund krónurnar, munu lesta fyrirtæki með láglaunafólk mjög mikið og hugsanlega gera þau óstarfhæf þannig að þau leggi upp laupana og um leið eykst atvinnuleysi. Það er þekkt að þegar menn hækka lægstu laun vex atvinnuleysið og sérstaklega hjá þeim sem eru með lægstu launin, ég spyr hvort þetta hafi verið metið og hvaða áhrif það hafi á ríkissjóð. Þetta mun auka skatttekjur ríkissjóðs mjög mikið. Eins og fram hefur komið fer hluti af 50 þús. kr. inn í lífeyrissjóði, þ.e. 6 þús. kr., hluti fer inn í sjúkrasjóði, 500 kr., og síðan inn í stéttarfélögin, 500 kr., og svo til ríkissjóðs, 20 þús. kr., tryggingagjald o.s.frv., þannig að mér sýnist að af þessum peningum muni fyrirtækin borga um 60 þús. kr. og launþeginn ekki fá nema 27 þús. kr. Hefur þetta verið metið inn þær tekjur sem kjarasamningarnir gefa, og þá plús flata hækkunin?

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé ástæða til að leggja fram fjáraukalög þannig að ríkissjóður megi borga út þær bætur sem hér er lagt til að verði greiddar.

Svo er kannski eitt í viðbót: Hafa lífeyrissjóðirnir einhvern tíma verið skattlagðir áður?