139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki tíma til að svara seinni tveimur spurningum hv. þingmanns og reyni að gera það núna. Varðandi lög og heimildir veit ég að velferðarráðherra er í samstarfi við félagsmálanefnd að óska eftir breytingum á lögum sem gera honum kleift og heimila honum að greiða bæturnar á því sviði.

Varðandi það að ríkið geti efnt kjarasamninga sem það gerir innan fjárlagaárs og mætt útgjöldum af því tagi sem teljast tilfallandi eru að sjálfsögðu alltaf heimildir til staðar í fjárlögum fyrir því og löng hefð er fyrir því að slíku mæta menn, og það eru ákveðin ákvæði í lögunum sem heimila að bregðast við slíku. Þar fyrir utan er óskiptur fjárlagaliður til ráðstöfunar í slík verkefni upp á 5 milljarða kr. Hann mun að sjálfsögðu gera miklu meira en duga þangað til fjáraukalagafrumvarp í haust verður komið fram, þannig að við erum ekki í neinum vandræðum hvað varðar heimildir að þessu leyti til, (Forseti hringir.) til þess að efna ákvæði tengd kjarasamningunum nú á miðju ári.