139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:44]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir greinargerðina. Eins og ég greindi frá áðan munum við taka málið til vandaðrar umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd og höfum til þess gott tækifæri á þeim nefndadögum sem í hönd fara en munum raunar hefja umfjöllunina þegar í fyrramálið.

Þó að það sé erfitt fyrir ríkissjóð að skerða tekjur sínar og auka útgjöld á jafnerfiðum tímum í ríkisfjármálum og nú eru held ég að almennt megi segja um þetta mál að miðað við þá hagsmuni sem undir eru við að ljúka og loka kjarasamningum til langs tíma sé það sem ríkissjóður þarf að verða af í tekjum með þeim hætti sem hér er lagt til algerlega innan viðunandi marka og byggi ekki á óhóflegri bjartsýni. Það sem er helst ástæða til að hafa áhyggjur af varðandi of miklar væntingar til hagþróunar í þeim kjarasamningum sem nú liggja fyrir eru launahækkanirnar sjálfar fyrst og fremst. Þó er gríðarlega mikilvægt að hér fari hagvöxturinn í gang. Þessar aðgerðir og ýmsar framkvæmdir eru til þess fallnar að stuðla að því og styrkja það umhverfi sem við þurfum að hafa til að geta fengið hjólin til að snúast. Það má í skemmstu máli segja að frá hruni hafi verkefnið að mörgu leyti verið að vinna úr helstu viðfangsefnunum og lenda málum, að nú sé kúfurinn af þeim verkefnum að baki og verkefnið fram undan að skapa tryggan ramma fyrir atvinnu- og efnahagslífið til að byggja upp og vaxa á næsta þriggja ára tímabili. Allir sem að málinu koma munu hafa mest gagn af vextinum, hvort sem er launafólk með hlutdeild sinni í vextinum í formi launahækkana, atvinnulífið í formi hagnaðar eða ríkissjóður í formi aukinna heildartekna sem er auðvitað það sem mestu máli skiptir þegar allt kemur til alls.

Hér er líka hreyft ýmsum mjög mikilvægum málum. Ég fagna því sérstaklega sem lýtur að því að verðtryggja á ný skattleysismörkin. Það var neyðarúrræði að taka þá verðtryggingu úr sambandi eftir hrunið vegna neyðarstöðunnar í opinberum fjármálum og mikilvægt að koma þar á samhengi á ný til að tryggja kjör hinna lægst launuðu. Sem betur fer hefur tekist að verja mjög skattbyrði hinna lægstlaunuðu í samfélaginu í skattbreytingunum þrátt fyrir þessa þróun skattleysismarka. Það hefur auðvitað sumpart gerst með þeim tveimur þrepum í skattkerfinu sem hafa verið tekin upp og það er þá kannski næsta mál sem við þurfum að ræða, þ.e. hvort fjárhæðarmörkin í þrepunum eigi ekki að vera verðtryggð með sama hætti og skattleysismörkin sjálf þannig að það sé líka tryggt að skattbyrði meðaltekjufólksins þyngist ekki ár frá ári vegna þess að þau mörk séu ekki uppfærð eftir verðlagi.

Ég fagna líka því sem lýtur hér að Starfsendurhæfingarsjóði. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, ekki síst á tímum sem þessum þegar þúsundir manna og vinnufúsra handa ganga sannarlega um atvinnulausar, að við séum með öflug úrræði í starfsendurhæfingu því að í atvinnuleysi er því miður tilfellið að einstaklingurinn bugast oft og brotnar jafnvel á tiltölulega skömmum tíma. Fái hann ekki viðeigandi starfsendurhæfingu og hvatningu meðan hann er í þessari erfiðu stöðu er hætt við því að möguleikar hans á því að koma aftur inn á vinnumarkað rýrni mjög hratt og jafnvel að eftir 9–12 mánaða atvinnuleysi séu þeir orðnir verulega litlir. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við sinnum starfsendurhæfingunni vel og líka vegna þess að við höfum sinnt henni miklu lakar en þær þjóðir sem við jafnan berum okkur saman við. Við þurfum að setja miklu meira til ráðstöfunar í þessum efnum vegna þess að ég er algerlega sannfærður um að hver króna sem við fjárfestum í starfsendurhæfingu skilar atvinnu- og efnahagslífinu og hinu opinbera henni margfaldri aftur.

Þá eru hér breytingar sem lúta að ýmsum álitaefnum sem hafa komið upp eftir að við hertum mjög á skattframkvæmd, m.a. á grundvelli skýrslu sem hér var gerð fyrir um það bil áratug um skattsvik og leiddi í ljós að í landinu voru gríðarlega umfangsmikil skattsvik. Með því að herða mjög á ýmsum reglum og afnema undanþágur hefur okkur tekist að draga úr þeim möguleikum sem menn hafa til þess en í þeim breytingum voru auðvitað ýmis flókin tæknileg álitaefni sem nauðsynlegt er að taka til endurmats að fenginni reynslu af þeim.

Þó er í þessum breytingum eitt atriði sem ég vildi biðja ráðherrann um að skýra þegar hann lokar umræðunni á eftir, þessi tillaga um að útgreiðsla arðs skuli aðeins vera í lægra tekjuskattsþrepinu. Hvers vegna er sú tillaga hluti af þessu máli? Flest það sem ráðherrann reifaði í þessu sambandi virðist vera nokkuð augljóslega til einföldunar á framkvæmdinni, til skýringar á þeirri framkvæmd sem nú er við lýði eða til að koma til móts við réttmætar athugasemdir Samtaka atvinnulífsins við þær breytingar sem orðið höfðu.

Í tengslum við þetta eru meðal annars álitaefni sem við höfum hér rætt, svo sem um afdráttarskatta og líka um þær ráðstafanir sem gripið var til til að koma í veg fyrir þá tilhneigingu að menn færðu raunverulegar launatekjur sínar yfir í það form að taka þær í gegnum einkahlutafélög á miklu lægri skattprósentu sem arð út úr félögunum. Það hefur verið hluti af því mikilvæga verkefni að leiðrétta hér skattumhverfið eftir að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu leikið það eins og raun bar vitni, að skapa meira jafnræði með tekjum manna í landinu þannig að hér séu ekki einstakir hópar manna með háar tekjur og geti tekið þær eftir krókaleiðum og í gegnum einkahlutafélög á miklu lægri sköttum en allur almenningur þarf að borga af sínum launum. Það eru auðvitað sjónarmið um að þegar við tókum á því kunni að hafa verið af því hliðarverkanir sem nauðsynlegt sé að bregðast við með því að takmarka nokkuð áhrif þessara breytinga.

Í öllum meginatriðum hygg ég að frumvarpið hafi í för með sér hófleg áhrif á ríkissjóð í fyrsta lagi, í öðru lagi að þetta séu breytingar til batnaðar og auðvitað það gríðarlega mikilvægi að tryggja framgang kjarasamninga. Þó hlýtur það að valda nokkrum vonbrigðum að ríkissjóður skuli þurfa að taka svo stóran hluta af vaxtabótunum eins og frumvarpið ber með sér. Kostnaðurinn við aðgerðirnar fyrir skuldsett heimili nemur á þessu ári 6 milljörðum kr. í vaxtabótakerfinu og það var auðvitað uppi um það krafa í samfélaginu að kröfuhafarnir og lánardrottnarnir tækju á sig einhvern kostnað við það að leiðrétta verstu þættina í skuldastöðu heimilanna eftir efnahagshrunið. En það er ljóst með þessu að það verður að hluta til almenningur sjálfur, þ.e. skattgreiðendur, sem mun axla hluta af þeim kostnaði. Það eru aðeins 3,5 milljarðar af þessum 6 sem gert er ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir og bankarnir beri. Auðvitað er almenningur meðal eigenda lífeyrissjóðanna og ber þess vegna kostnaðinn þeim megin líka svo að alveg einföld er þessi mynd heldur ekki.