139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[12:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orðin um láglaunafólkið. Ástæðan fyrir því að verðtrygging skattleysismarkanna var felld úr gildi við hrunið og er fyrst tekin upp aftur nú er augljóslega sú að við höfum einfaldlega ekki haft ráð á því. Ég held að um leið og hagur strympu vænkist hljóti að verða forgangsverkefni að vinna upp þann mun. Til þess þurfum við hins vegar að hafa í húsi talsverðan vöxt í efnahagslífinu svo samfélagið hafi ráð á þeim skrefum. Þeim mun fyrr þeim mun betra.

Hvað lífeyrismálin varðar er það hárrétt hjá hv. þingmanni að auðvitað er mjög mikilvægt að samræma lífeyrisréttindin og ójafnræði er í því að sumir hafi réttindin tryggð en aðrir þurfi að greiða fyrir þau. Ég held þó að sú skattlagning á lífeyrissjóðina sem hér er lögð til sé í fyrsta lagi ákaflega hófleg, í öðru lagi megi jafnvel halda því fram að þau lánasöfn sem þeir höfðu á íbúðareigendur hafi verið oftryggð með verðtryggingunni og sömuleiðis sé fyllsta ástæða til að efast um að 5% raunávöxtunarkrafa, eins og menn hafa gert til íbúðareigenda á verðtryggðum fasteignalánum, standist yfir höfuð, hvort hún sé ekki einfaldlega ein af ástæðum þess hversu illa fór. Það að gera á eitt samfélag 5% raunávöxtunarkröfu á eignasafn upp á 2 þús. milljarða, ávöxtunarkröfu upp á 100 milljarða árlega eða 1 milljón króna á hvert heimili, svo það sé sett í samhengi, held ég að sé til býsna mikils mælst þó að Ísland sé öflugt hagkerfi.

Fyrst og fremst tel ég að þessar litlu skattgreiðslur lífeyrissjóðanna (Forseti hringir.) komi til hinna verst settu. Sjóðirnir hefðu annars tapað í afskriftum lána vegna þess að fleiri af lánþegum lífeyrissjóðanna hefðu (Forseti hringir.) orðið gjaldþrota en með þessum hætti.