139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég neyðist til að ítreka tilmæli mín til forseta frá því í gær um að gardínurnar verði dregnar frá gluggunum svo að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar megi sjá að kominn er dagur (Gripið fram í.) og það er bjart úti. Þetta tal um kyrrstöðu og doða er auðvitað óhófleg svartsýni. Það liggur einfaldlega þannig að samdráttarskeiðinu er sem betur fer lokið og allir spáaðilar spá vexti í efnahagsstarfseminni á yfirstandandi ári, mismiklum vexti. Við getum sagt að við vildum öll sjá meiri vöxt en spáð er. En við erum aftur komin í vöxt og við höfum öll færi á því að sækja fram.

Nú höfum við þriggja ára samkomulag á vinnumarkaði, ramma fyrir atvinnu- og efnahagslífið og þann stöðugleika sem því fylgir. Við höfum, eins og hv. þingmaður nefndi, lága vexti, lága verðbólgu og hvort tveggja eru góð skilyrði fyrir atvinnulífið. Við höfum ótrúlega veika krónu sögulega sem á að vera mjög hvetjandi til margvíslegra fjárfestinga og framkvæmda í útflutningsstarfsemi, sem er ekki síður mikilvægt fyrir okkur. Við höfum margar ástæður til þess að vera — ekki bjartsýn eins og við vorum í góðærinu en vongóð um að við séum að fara að byggja upp og hér muni ástandið batna frá mánuði til mánaðar. Við sjáum m.a. að neyslan, sem er ágætisviðmið um efnahagsstarfsemina í samfélaginu, er aftur tekin að aukast.