139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:31]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nokkurs konar bandorm, breytingu á ýmsum skattalögum, og það er gert í tengslum við undirritun kjarasamninga. Ég vil fyrst taka fram að ég fagna því að kjarasamningar hafi náðst þrátt fyrir að það liggi náttúrlega ekki alveg fyrir hvernig þeir hlutir fara þar sem það eru uppsagnarákvæði hjá vinnuveitendum, en við skulum vona það besta. Þar sem þetta frumvarp er bandormur ægir hér saman ýmsum hlutum en mig langar til að taka fyrir sérstaklega nýbreytni sem verið er að innleiða hér og þá ætla ég fyrst að tala um Starfsendurhæfingarsjóð.

Það er gleðilegt að ráðist verði í að stofna starfsendurhæfingarsjóð sem er þannig fjármagnaður að hann geti tekið á þeim raunverulegu vandamálum sem við er að glíma núna á þessum erfiðu tímum. Ég er aftur á móti ekki sáttur við hvernig sjóðurinn er fjármagnaður en sjóðinn á að fjármagna með 0,13% iðgjaldi sem verður tekið af stofni iðgjaldagreiðslna í lífeyrissjóði. Nú erum við að sjá þá nýbreytni að það á að fara að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði sem við sjálfstæðismenn börðumst reyndar fyrir en undir allt öðrum formerkjum en hér er gert, eða eins og segir í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu við frumvarpið, með leyfi forseta:

„Verði þetta ákvæði lögfest munu iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða því rýrna um 0,13% af iðgjaldsstofni.“

Jafnframt er kynntur hér til sögunnar skattur sem á að koma á fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði sem mun nema um 0,0972% af hreinni eign til greiðslu lífeyrissjóðs í lífeyrissjóðunum. Þarna er verið að kynna til sögunnar skatt sem er lagður beint á lífeyrissjóðina.

Mig langar kannski áður en ég held áfram til að fara aðeins yfir hvernig lífeyrisgreiðslur eru skattlagðar hefðbundið. Þar er raunverulega um þrjár leiðir að velja. Í fyrsta lagi inngreiðslurnar, í öðru lagi hefur tryggingastærðfræðin sagt til um það að hægt sé að skattleggja ávöxtun lífeyrissjóðanna, sem er þá nokkurs konar fjármagnstekjuskattur á lífeyrissjóðina, og í þriðja lagi útgreiðslur. Í nálægum löndum tíðkast yfirleitt það fyrirkomulag, t.d. í Danmörku, að þar borga lífeyrissjóðirnir fjármagnstekjuskatt, þ.e. þar sem skattstofninn er hrein ávöxtun sjóðanna, og útgreiðslurnar. Á Íslandi hefur þetta verið þannig og hefur verið um nokkuð árabil, allt frá því að leiðrétt var svokölluð tvískattlagning á lífeyrissjóðum fyrir nokkrum árum, að útgreiðslurnar eru skattlagðar, inngreiðslurnar og uppsöfnun í sjóðnum, þ.e. fjármagnsuppsöfnunin, ávöxtunin, er óskattlögð en útgreiðslurnar skattlagðar með hefðbundnum tekjusköttum eða skattprósentum.

Nú erum við því að sjá að hér á Íslandi á að fara út í þá merku tilraun að skattleggja inngreiðslur. Það á að skattleggja uppsöfnun eða ávöxtunina. Það á að skattleggja stofninn, eignastofninn í lífeyrissjóðnum, sem ég hygg að sé gert í fyrsta skipti í sögunni. Þetta er hrein eignaupptaka, algjörlega hrein eignaupptaka. Síðasta skrefið er að það á að skattgreiðsla útgreiðslurnar. Því er ekki einungis snúið til baka með þá leiðréttingu sem gerð var á skattlagningu lífeyrissjóða fyrir nokkrum árum, heldur er bætt í. Eftir þessa breytingu verður lífeyrir, eftirlaun á Íslandi, þrískattlagður; ekki tvískattlagður heldur þrískattlagður. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti í sögu lífeyrissjóða í heiminum sem sú tilraun er gerð. Það er ljóst að þetta mun skerða eftirlaun fólks í framtíðinni og þeirra sem nú þiggja lífeyri, þ.e. þessi viðbótarskattlagning á hreinu eignina mun lækka lífeyrisgreiðslur þeirra. Þeir sem eru komnir á eftirlaun eru náttúrlega hættir að greiða inn í sjóðina þannig að þetta er engin smábreyting.

Það er kannski rétt að taka fram að þetta eru ekki háar prósentur sem verið er að setja hér inn. 0,13% af inngreiðslunum og tæp 0,1% af hreinu eigninni eru ekki háar upphæðir en yfir margra ára tímabil, kannski áratugatímabil, mun þetta óneitanlega verða til þess að útgreiðslur úr lífeyrissjóðum verða mun lægri en ella. Það er óhætt að segja að þetta sé ekki fagnaðarefni fyrir launþega þessa lands, þá sem þiggja lífeyri í framtíðinni. Þetta er stóralvarlegt mál. Þrátt fyrir að þetta séu ekki háar prósentur, eins og ég sagði, er ljóst að þarna er verið að opna einhverjar dyr. Við vitum alveg hvernig stjórnmálamenn eru, alla vega á öðrum helmingi stjórnmálavængsins, að þeir leitast fremur við að hækka skatta en lækka. Og af því að þetta er langtímaeign, þetta eru hlutir sem gerast hægt, hvernig lífeyrir eða réttur til eftirlauna byggist upp, eru ekki hörð mótmæli við þetta en svona breytingar leiða til þess að fólk vaknar upp einn góðan veðurdag í framtíðinni við þá staðreynd að það mun ekki fá þau eftirlaun sem það reiknaði kannski með.

Ég held að sé algjörlega óhætt að segja að íslenska lífeyrissjóðakerfið er eitt hið fullkomnasta í heimi ef ekki hið fullkomnasta. Það byggir á þrem stoðum, þ.e. á grunnlífeyri sem er tryggður öllum, á starfstengdum lífeyri sem lífeyrissjóðirnir hafa blessunarlega haldið utan um og eignir þeirra eru núna orðnar um 120–130% af landsframleiðslu, eignirnar eru orðnar meiri í hlutfalli við landsframleiðslu en t.d. olíusjóðsins norska, og loks á valfrjálsum sparnaði eða séreignarsparnaði.

Nú er búið að keyra inn í séreignarsparnaðinn þannig að fólki hefur verið leyft að taka út eftirlaunasparnað sinn í nokkurn tíma og það eru þó nokkuð miklar upphæðir sem það nemur. Fyrst í stað gæti maður haldið að það væri til að koma til móts við mikið tekjufall hjá mörgum, en það hvarflar óneitanlega að manni að þetta sé ansi mikill og góður skattstofn fyrir ríkið og getur stoppað upp í það gat sem varð hér í kjölfar þess að skattgrunnarnir drógust saman.

Ég er tiltölulega nýbúinn að fá þetta, það eru ekki nema um það bil tveir tímar síðan ég fékk þetta frumvarp í hendurnar og þetta er það sem mér finnst vera alvarlegast í því. En hér eru jafnframt hlutir sem horfa til batnaðar, eins og skattlagning einstaklinga sem starfa í eigin félögum, skilyrði fyrir frádráttarbærni arðgreiðslna og söluhagnaðar, afdráttur skatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila og mat hlutabréfa við skilgreiningu á stofni auðlegðarskatts.

Það er kannski óþarfi að fara í mjög löngu máli um frumvarpið en ég held að það sé samt rétt að það komi fram hér að þegar skattkerfinu var breytt í þá átt að þessir skattar voru teknir upp og þær skattbreytingar sem þetta leiddi af sér voru gerðar var varað við öllum þessum atriðum í efnahags- og skattanefnd af fulltrúum stjórnarandstöðunnar þar. Þá gáfu menn ekki mikið fyrir þau ráð sem stjórnarandstaðan hafði fram að færa og þetta var keyrt í gegn. Síðan virðist sem mönnum hafi snúist hugur og það er merkilegt að það skuli vera í tengslum við kjarasamninga sem bendir þá ótvírætt til að hið nýja löggjafarvald, sem eru aðilar vinnumarkaðarins, hafi haft þar áhrif á.

Horfandi á söguna og þann lærdóm sem draga má af mistökunum sem voru gerð hér og leiðréttingum sem eru að koma fram held ég að hæstv. fjármálaráðherra ætti að horfa til þeirra viðvarana sem við í stjórnarandstöðunni erum með núna um hvernig fara eigi með skattlagningu á lífeyrissjóðina. Hann væri maður að meiri ef hann drægi til baka þessa hluti og færi að þeim ráðum sem bent er á hér.

Frumvarpið verður tekið fyrir í efnahags- og skattanefnd í fyrramálið. Þar munu fulltrúar bæði vinnumarkaðarins og lífeyrissjóðanna koma og gera grein fyrir máli sínu. Það verður eflaust fróðlegt að sjá hvað þeim finnst um það samhengi sem ég hef rakið hér um lífeyrissjóðina. Ef þetta er gert með samþykki þeirra er þetta jafnvel enn alvarlegra, að þeir vilji standa að þessum gerræðislegu vinnubrögðum, að ég tel, um hvernig breyta á skattlagningu á lífeyrissjóðina.

Þegar ég starfaði sem prófessor vann ég mikið í rannsóknum á lífeyrissjóðum og var mikið í ráðgjöf, bæði hér heima en þó mest erlendis, við uppbyggingu lífeyrissjóða og ég verð að segja að ég hef aldrei séð jafnframandi hugmyndir um skattlagningu eftirlauna eða lífeyrissjóða eins og hér eru lagðar fram. En ég áskil mér rétt, eins og allir náttúrlega, til að fara betur í gegnum frumvarpið sem ég hef bara rétt náð að fletta í gegn og mun eflaust vera með athugasemdir í efnahags- og skattanefnd þegar frumvarpið kemur til umræðu þar.