139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta yfirferð yfir þetta mál. Hann gleymdi reyndar einu atriði varðandi lífeyrissjóðina, því að sumir lífeyrissjóðir, þeir opinberu, hafa föst réttindi samkvæmt lögum. Það skiptir engu máli hvað lagt er á þá. Það sem lagt er á þá af álögum borga skattgreiðendur með auknu iðgjaldi úr ríkissjóði. Þegar lífeyrissjóðirnir gera svona samkomulag eru þeir í rauninni að segja að þeir lífeyrissjóðir sem ekki heyra undir opinbera eign eða hafa opinbera starfsmenn í sinni þjónustu muni borga extra mikið vegna þess að félagsmenn þeirra, sjóðfélagar í almennu sjóðunum, munu borga aukna skatta eins og ríkisstarfsmenn reyndar líka en lífeyrissjóðir þeirra takmarkast og minnka við þetta. Allt það sem hv. þingmaður sagði er hárrétt, það er alveg með ólíkindum að menn skuli fara í þá vegferð að skattleggja bæði eignir og inngreiðslur, það er augljós skattur á launafólk hjá atvinnulífinu. Sumir telja kannski að atvinnulífið standi blómlega og að hér sé rífandi atvinna um allt, það þurfi bara að draga gluggatjöldin frá, sjá sólina úti og þá sé allt ljómandi gott, en stundum er hvíslað að mér að atvinnulífið standi ekki vel á Íslandi. Þess vegna er svona skattlagning á atvinnulífið mjög varasöm.