139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[13:47]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Þetta er hárrétt athugað hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, auðvitað er lífeyrir opinberra starfsmanna lögbundinn þannig að við getum bætt einum punkti við þetta. Þessi aðgerð mun leiða til aukins misræmis milli lífeyris opinberra starfsmanna og lífeyris á almennum markaði. Sú vegferð sem til dæmis verkalýðshreyfingin lagði upp í, að það ætti að jafna lífeyri milli almennu sjóðanna og opinberu sjóðanna, virðist hafa leitt til þveröfugrar niðurstöðu og að misræmið verði enn meira. Með sköttum sínum munu félagsmenn í almennu lífeyrissjóðunum og líka opinberir starfsmenn þurfa að borga fyrir þau auknu réttindi opinberra starfsmanna sem leiða af þessum tveimur nýju breytingum.

Til að vera sanngjarn er rétt að geta þess að þessi starfsmenntunarsjóður gæti leitt til lægri útgjalda fyrir lífeyrissjóðina. Þess vegna gætu lífeyrissjóðirnir unnið sér upp þetta tap í inngreiðslum með lægri kostnaði. Þá ber að geta þess að engin tilraun er gerð í umsögn með frumvarpinu til að segja hvernig þetta eigi að gerast og yfirleitt vitum við ekki mikið um hvernig þessir starfsendurhæfingarsjóðir eiga að líta út.