139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, sérstaklega í ljósi þess hversu lítinn tíma við höfum haft til að kynna okkur innihald frumvarpsins sem er eitt af fjölmörgum sem lögð eru hér fram með sérstökum afbrigðum. Það er kannski erfitt að eiga efnisríka umræðu með svo stuttum fyrirvara, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarandstaðan hefur haft mjög takmarkaða aðkomu að ákvarðanatökuferlinu hingað til. Eins og hv. þingmaður nefndi réttilega fær maður það á tilfinninguna að Alþingi sé eins konar stimpilpúði í þessu máli, í raun og veru sé verið að staðfesta lagafrumvarp sem samið hefur verið úti í bæ af hagsmunaaðilum. Ég tel að þessu þurfum við að breyta í náinni framtíð, í það minnsta hleypa fulltrúum stjórnarandstöðunnar að ákvarðanatöku fyrr í ferlinu.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort farið hafi fram hjá mér fundarboð af hálfu fjármálaráðuneytisins því mig minnir að það séu orðnir níu eða tíu mánuðir síðan við hv. þingmaður sátum samráðsfund sem var skipaður aðilum úr ýmsum áttum í íslensku samfélagi til að fara yfir breytingar á skattkerfinu og framtíðarsýn hvað það varðar. Boðað var að sá félagsskapur ætti að hittast reglulega. Ég held að það séu átta eða níu mánuðir síðan ég fékk fundarboð á slíkan fund og farið að hvarfla að mér að ég hefði dottið út af einhverjum póstlista. Kannski er þetta einhver misskilningur og samráðsferlið í raun og veru bara búið og ekki að marka þau fyrirheit sem ríkisstjórnin gaf um samráð er varðar skattstefnu hins opinbera sem hefur verið svo mislukkuð sem raun ber vitni og þetta frumvarp ber með sér og ég ætla að fara yfir á eftir. Er virkilega rétt að eiginlega heil meðganga hafi liðið, níu mánuðir, síðan þessi nefnd hittist síðast?