139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er þá rétt skilið að það flokkast undir langtímaminni að rifja upp þessa nefnd. Ekki þarf að grufla í skammtímaminninu þegar kemur að endurskoðun á skattstefnunni sem hefur verið gagnrýnd svo mikið sem raun ber vitni af helstu hagsmunaaðilum í samfélaginu, ekki síst af atvinnulífinu, fyrst við teljum það í mánuðum hversu langt er síðan við hittumst.

Ég verð að taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að fyrst nefndarstarfið er viðhaft með þessum hætti sé það meira til skrauts, svo hægt sé að setja niður á blað að eitthvert samráð sé í gangi. Svo við höfum það á hreinu og það sé fest í þingtíðindi hefur þessi nefnd verið meira eða minna ómerk og allt tal um samráð við stjórnarandstöðu og hagsmunaaðila í íslensku samfélagi eru greinilega orðin tóm í þeim efnum. Ég held að mikilvægt sé að það komi fram.