139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem ekki gefist mikill tími til að fara yfir frumvarpið og bera það saman við þau lög sem það tekur til að mörgu leyti. Mig langar að fara yfir nokkur atriði. Í fyrsta lagi held ég að það sé nú ástæða fyrir flesta að fagna 6. gr., um persónuafsláttinn og breytinguna á honum. Það hlýtur að koma flestum launþegum, og þá kannski helst þeim sem minnst bera úr býtum, til góða.

Áður en maður gagnrýnir hlutina er kannski ágætt að fara yfir það sem maður telur vera í lagi eftir snögga yfirferð. Þar sem hér er verið að ræða skatta á fyrirtæki, um hugsanlegar breytingar á tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi, tel ég, þó að jafnframt sé sagt að slíkar breytingar komi ekki til fyrr en á haustþingi, ástæðu til að binda vonir við það, lægra tryggingagjald mun að sjálfsögðu efla fyrirtækin. Mig langar að velta upp þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort það muni þá ekki líka ná til sveitarfélaganna sem launagreiðanda eins og fyrirtækja, það er ekki nefnt hér. En það má með sanni segja að þetta frumvarp er ekki tengt kjarasamningum opinberra starfsmanna, heldur, að því er virðist, eingöngu kjarasamningum á hinum almenna markaði eins og svo oft er sagt. Þannig að það sé að minnsta kosti tryggt að sveitarfélögin sitji við sama borð og aðrir launagreiðendur.

Stærstu breytingarnar sem tengjast launafólki — og áður en ég kem að því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um 10. gr., þar sem verið er að tala um innheimta og skila virðisaukaskatti af rafrænt afhentri þjónustu, þá erum við væntanlega að tala um það sem við köllum venjulega gagnaver. Hér er verið að leggja til að aðilar sem selja rafrænt afhenta þjónustu yfir 1 millj. kr. þurfi að greiða og innheimta og skila virðisaukaskatti. Er þetta veruleg breyting frá því sem verið hefur? Hvað kann þetta að hafa í för með sér?

Það sem er kannski mest ógnvekjandi, að ég tel, af því það er ekki nægjanlega útfært, og ég skil ekki alveg með hvaða hætti það verður gert, er það sem tengist annars vegar 9. gr. og hins vegar 16. gr. Í 9. gr. segir, með leyfi forseta:

„Við álagningu opinberra gjalda árið 2011 skulu aðilar sem falla undir 6. tölulið 4. gr. greiða sérstakan skatt sem nemur 0,0972% af hreinni eign til greiðslu lífeyris.“

Bara svo að ég skilji þetta: Er nokkuð verið að fara inn á þá braut að hugsanleg lífeyriseign hins venjulega launamanns verði skattlögð í framtíðinni? Erum við að feta þá leið, fyrst við tökum á lífeyrissjóðunum með þessum hætti, sem eru jú eign þeirra sem í þá greiða, að fara síðan frá því og yfir í það að hugsanleg eign í lífeyrissjóðunum verði skattlögð hjá hverjum og einum einstaklingi?

Ég geri ráð fyrir að breyta þurfi lögum um lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, ef þetta á að ná til hans, þegar kemur að samningum við opinbera starfsmenn.

Þetta er eitt af því sem maður veltir fyrir sér og spáir í og lítið sem hönd á festir hvaða áhrif þetta hugsanlega getur haft. Það segir þó, með leyfi virðulegs forseta, frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins:

„Verði þetta ákvæði lögfest munu iðgjaldagreiðslur til lífeyrissjóða því rýrna um 0,13% af iðgjaldsstofni. Sú rýrnun kynni að leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga til lengri tíma litið en á móti ætti að vega minni örorkubyrði vegna aukinnar starfsendurhæfingar.“

Sem betur fer verða nú ekki allir þeir sem eiga réttindi hjá lífeyrissjóðunum öryrkjar þó að vel þurfi að standa við bakið á þeim sem það verða.

Hér kemur líka, virðulegur forseti:

„Hjá lífeyrissjóðum ríkis og sveitarfélaga þar sem réttindi eru tryggð samkvæmt sérlögum þyrfti að breyta lögum til að draga úr þeim, ella kann þessi skerðing á tekjum þeirra að leiða til aukinna skuldbindinga fyrir hið opinbera.“

Virðulegur forseti. Er þetta réttarbót fyrir launþega í þeim kjarasamningi sem hér var gerður, eða er þetta til lengri tíma litið skerðing? Við vitum það hér, að minnsta kosti þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð opinberra starfsmanna á árum áður, að þeir launþegar greiða í starfsendurhæfingarsjóð þannig að það mun ekki kalla á aukin útgjöld af hálfu ríkisins. Hér er verið að setja í lög að aðrir launagreiðendur eigi að greiða í starfsendurhæfingarsjóðinn. Lífeyrissjóðirnir eiga að greiða ákveðna prósentu í starfsendurhæfingarsjóð. Og svo stendur, sem er dálítið merkilegt, virðulegur forseti, að framlag lífeyrissjóðanna til starfsendurhæfingarsjóðs sé afturvirkt og reiknað út frá 1. júlí 2010, en hins vegar er það lögfest að framlag úr ríkissjóði til starfsendurhæfingarsjóðs verður frá og með 1. júlí 2013.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er þetta afturvirkt vegna lífeyrissjóðanna en tekur ekki gildi úr ríkissjóði fyrr en 2013?

Ég vil taka það fram, svo það fari ekki á milli mála, að ég er hlynnt starfsendurhæfingarsjóðum. Ég tel að þá eigi að virða og virkja mun betur en við höfum gert fram til þessa og samhliða því eigi að meta fólk til starfsorku og starfsgetu í staðinn fyrir að meta fólk til örorku. Það hlýtur að vera hvetjandi fyrir þann sem verður fyrir slysi eða veikist og verður öryrki að einhverju leyti að hægt sé að meta einstaklinginn til þátttöku í samfélaginu út frá starfsgetu hans en ekki út frá örorku hans. Að því leyti fagna ég þessum starfsendurhæfingarsjóði og ég fagna því að loksins skuli það komið frá ríkisstjórninni sem lofað var í svokölluðum stöðugleikasáttmála árið 2009.

Þetta eru svona vangaveltur, virðulegur forseti, við fyrstu yfirferð frumvarpsins. Ég verð hins vegar að láta í ljós skoðanir mínar: Í kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði hefði ég kosið að við værum komin það langt í samningagerð almennt að ríkisvaldið þyrfti ekki að vera að grípa inn í með loforðum til eða frá, að við byggjum við skattumhverfi sem flestir gætu sætt sig við sem þyrfti ekki að vera að breyta næstum því frá degi til dags eftir því hvernig vindurinn blæs í kjarasamningum eða öðru þess háttar. Ég veit hins vegar að þetta er krafa þeirra samningsaðila sem hafa samið í þessu tilviki og sjálfsagt oftar en ekki. En mér finnst að menn ættu að reyna að fara að koma sér út úr því að þegar gerðir eru kjarasamningar á hinum frjálsa markaði þurfi ríkisstjórn, og mér er slétt sama hverra flokka sú ríkisstjórn er, að koma inn til að lofa þessu eða hinu og það á að binda í lög einhvern tímann, án þess að það hafi verið kynnt og kannað hvort til þess sé meiri hluti á Alþingi hverju sinni, því að enn þá er það nú þannig að Alþingi fer með löggjafarvaldið.