139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[14:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna fyrir þessu frumvarpi. Að sjálfsögðu er hér um að ræða mál, eins og fram hefur komið, sem tengist að mestu leyti þeim kjarasamningum sem voru gerðir. Síðan eru hér aðrar breytingar sem tengjast þeim ekki beint. Ég vil í upphafi máls míns taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur þegar hún nefndi tengsl við kjarasamninga opinberra starfsmanna og stöðu sveitarfélaga. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin verði ekki látin taka á sig meiri kostnað en þau bera þegar vegna kostnaðar er tengist rekstri þeirra og þau þurfa í raun á frekari og meiri tekjum að halda en að þær séu skertar að einhverju leyti. Ég er ekki að segja að það verði niðurstaðan en ég vil taka undir þau varnaðarorð sem hér voru sögð.

Það er mjög mikilvægt að skattkerfið sé eins einfalt og gagnsætt og hægt er. Ég held að fátt sé leiðinlegra, ef ég má orða það svo, eða erfiðara að botna í en flókið skattkerfi eins og það hefur nú þróast á Íslandi og lífeyriskerfið, ég tala nú ekki um það, það liggur við að það þurfi sérfræðinga í það að fletta öllu upp í þessum tveimur málaflokkum. Því er nauðsynlegt að koma með þau varúðarorð að ekki verði farið í neina aukasnúninga við að flækja skattkerfið enn frekar, en ég tek það fram að ég er ekki heldur að fullyrða að svo sé.

Í þessari umræðu vil ég nota tækifærið og nefna að það má færa fyrir því rök að skattbyrði á Íslandi sé ekki jöfn, henni sé ekki dreift á alla, og þá er ég að vísa til þess að hluti landsmanna býr í fyrsta lagi við skerta eða minni þjónustu en aðrir landshlutar og greiða að mörgu leyti hærri skatta til ríkisins en aðrir. Það gerist t.d. í gegnum hærri húshitunarkostnað, í gegnum hærri flutningskostnað o.s.frv. Þetta á við bæði um einstaklinga og fyrirtæki á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að farið verði sem fyrst í að lækka þennan kostnað og jafna þar með búsetu og búsetuskilyrði landsmanna allra. Hægt er að færa fyrir því góð rök sem hefur verið gert í sumum nágrannalöndum okkar að hægt sé að nota skattkerfið í byggðamálum og til að ýta undir ákveðna þróun í byggðarlögum.

Það er mjög freistandi að ræða hér aðeins um sjávarútveginn þó að hann sé ekki nefndur í þessu frumvarpi, en það er alveg ljóst að kjarasamningar og lausn þeirra tengist sjávarútveginum á margan hátt. Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að ég hef undrast svolítið að talsmenn launþega hafi ekki beitt sér meira fyrir hönd sjávarútvegsins í þeirri umræðu þar sem líklega fáir eiga jafnmikilla hagsmuna að gæta í sjávarútveginum og akkúrat skjólstæðingar Alþýðusambands Íslands og slíkra samtaka.

Það er eitt smáatriði sem ég rak augun í hér sem mig langar að spyrja ráðherra út í og ég hef ekki fundið skýringar á í athugasemdum við frumvarpið en það getur nú verið að mér hafi yfirsést. Það er varðandi það að heimildir ferðamanna til innflutnings á bjór eru auknar og sömuleiðis heimildir flugáhafna. Ég velti því fyrir mér af hverju verið er að auka heimildir flugáhafna — já, þá er skýringin komin. Mér finnst svolítið sérstakt að það skuli tekið þarna inn í. Það kann vel vera að þetta tengist kjarasamningum, að flugáhafnir þurfi að hafa með sér meira af áfengi inn í landið, en það er býsna langsótt til að leysa kjarasamninga að bæta því inn í. Þá er nú hægt að taka ýmislegt góðgæti í púkkið.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni. Ég hvet nefndina að sjálfsögðu til þess að fara vandlega yfir þær breytingar sem hér eru boðaðar og ekki síst þær sem ekki tengjast beint kjarasamningum því að það er vitanlega mjög freistandi að nota ferðina eins og sagt er.