139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[15:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Ég vildi spyrja hvenær von sé á niðurstöðu ESA, hvort hæstv. fjármálaráðherra hafi upplýsingar um það. Ákvæðinu er frestað til 1. október og ég veit að þar sem þetta mál er búið að vera í vinnslu væntanlega á þriðja ár í fjármálaráðuneytinu eru menn orðnir mjög óþolinmóðir. Ég vona svo sannarlega að þetta verði ekki til þess að fyrirtæki sem hugðust setja upp starfsemi hér séu nú hætt við það, maður hefur haft af því áhyggjur, og þess vegna þarf að ljúka þessu máli með einum eða öðrum hætti þannig að lokaniðurstaða fáist sem allra fyrst.

Síðan vildi ég ítreka spurningu mína um hitt atriðið og ríkisskattstjóra, um þann mun á túlkun sem hefur verið á milli ríkisskattstjóra og þessara fyrirtækja varðandi heimilisfesti og starfsstöð. Er það eitthvað að breytast eða er það stál í stál?