139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

824. mál
[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg, án þess að ég þekki það alveg nákvæmlega, að dagsetningin sem hér er valin sé ekki tilviljun heldur byggi hún á mati sérfræðinga og þeirra lögfræðinga sem annast þessi samskipti að líklegt sé að ESA hafi lokið rannsókn sinni fyrir 1. október og við verðum búin að fá niðurstöðu fyrir þann tíma. Við leggjum að sjálfsögðu mikla áherslu á að þessu verði hraðað. Reyndar er það svo að það eru auðvitað óvenjumörg mál opin milli Íslands og ESA af ýmsum ástæðum sem tengjast efnahagshruninu og aðgerðum stjórnvalda. Það mæðir talsvert á þeim hópi, ekki síst lögfræðingum fjármálaráðuneytisins sem fara að uppistöðu til með öll þau mál sem tengjast ríkisaðstoð og öðru slíku. Vonandi er það svo að við fáum niðurstöðu í þetta fyrir haustið. ESA mun vita af því að við frestuðum gildistöku laganna til 1. október og það er gert í því skyni að ESA fái tóm til að klára málið.

Varðandi síðari þáttinn og ágreininginn um túlkun ríkisskattstjóra skal ég fúslega játa að ég hef ekki neinar nýjar upplýsingar um það. Ef ég skil þetta rétt, sem þarf ekki að vera, hefðu lögin, hefðu þau staðið og ESA ekki mótmælt þeim, í sjálfu sér að miklu leyti leyst þann ágreining a.m.k. hvað búnaðinn varðaði. Það hefði ekki þurft að deila um þann þátt lengur. (Gripið fram í.) Síðan er það auðvitað almennt spurningin um það þegar starfsemi kemur hér sem er í raun útvistuð frá öðru landi, ef ekki er um einstakling að ræða heldur rekstur eða aðkeypta þjónustu gilda ekki hinar hefðbundnu reglur um þriggja mánaða reglur og annað því um líkt. Ríkisskattstjóri hefur þá verið með úrskurðum eða bindandi álitum að reyna að skýra réttinn og hvernig þetta eigi að vera. Ég skal ekki segja nákvæmlega hvar það stendur hvað þennan þátt sérstaklega varðar en ég veit það fyrir víst, eins og ég sagði áðan, að a.m.k. í einu ef ekki tveimur tilvikum hafa mál af þessu tagi verið að leysast einfaldlega vegna þess að viðskiptavinirnir geta ákveðið sjálfir að koma hér upp starfsstöð.