139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

bókhald.

700. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

Á fund nefndarinnar komu eftirfarandi gestir: Harpa Theodórsdóttir frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Þór Clausen frá Háskólanum í Reykjavík, Júlía Sigurbergsdóttir frá Félagi viðurkenndra bókara og Inga Jóna Óskarsdóttir úr prófnefnd sem annast námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara.

Með frumvarpinu er lagt til að fellt verði brott ákvæði laga um bókhald þess efnis að efnahags- og viðskiptaráðherra hlutist til um að haldin séu námskeið fyrir þá sem vilja fá viðurkenningu sem bókarar. Slík námskeið hafa verið haldin í Háskólanum í Reykjavík á grundvelli samnings milli skólans og fjármálaráðuneytis sem fór áður með málaflokkinn.

Verði frumvarpið að lögum mun hlutverk ráðherra samkvæmt 43. gr. laganna vera að sjá til þess að haldin verði próf fyrir þá sem óska eftir viðurkenningu sem bókari. Þannig munu fleiri menntastofnanir en Háskólinn í Reykjavík geta boðið upp á námskeið og þeir sem hafa starfsreynslu og treysta sér til geta farið beint í próf og öðlast viðurkenningu án þess að sækja námskeið.

Verði frumvarpið að lögum verður áfram kveðið á um það að ráðherra geti gert vissar kröfur sem mælt verði fyrir um í reglugerð. Lagt er til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Nefndin stóð einhuga að baki álitinu.