139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

meðhöndlun úrgangs.

186. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég kem hingað upp til að mæla fyrir breytingartillögu sem er eins smáleg og breytingartillögur geta orðið. Þannig háttar til í þessu máli að umhverfisnefnd gerði að tillögu sinni að fella úr því stóran part sem fjallaði um drykkjarvöruumbúðir og þingið samþykkti það við lok 2. umr. Það verða stundum lýs eftir við svona stórkarlalegar aðfarir og þessi breytingartillaga er flutt til að ryðja lúsinni burt úr b-lið 2. gr. Þar er einmitt talað um drykkjarvöruumbúðir en þær eiga ekki heima hér heldur í öðrum lögum sem standa áfram og taka sérstaklega til þeirra. En í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir að þær dyttu út. Um það þarf því ekki frekar að fjalla og hefði raunar verið saklaust þó að það hefði staðið, að vísu algjörlega merkingarlaust og þannig viljum við ekki hafa lögin.

Ég vil í öðru lagi segja frá því að eftir að nefndin hafði komið til þingsins tillögum sínum fyrir 2. umr. barst okkur erindi frá mönnum sem starfa við umhirðu raf- og rafeindatækjaúrgangs þar sem andæft var b-lið í 15. gr. sem á við þá grein sem nú verður 37. gr. í þessum lögum og fjallar um það að til að sannreyna framleiðslu-, innflutnings- og sölumagn raf- og rafeindatækja eða sölu raf- og rafeindatækja sé Umhverfisstofnun sem og stýrinefnd heimilt að óska eftir gögnum úr bókhaldi skilakerfa eða framleiðenda og innflytjenda um sölumagn raf- og rafeindatækja. Þarna er kveðið á um að löggiltur endurskoðandi skuli staðfesta með undirskrift sinni að gögn og upplýsingar samkvæmt fyrsta málslið séu réttar og að skylt sé að veita aðgang að umbeðnum gögnum innan 14 daga frá því að þeirra var óskað. Athugasemdin var sú að þetta væri kannski fullmikill eftirlitsiðnaður þar sem miðað væri við gögn frá tollstjóra sem hlytu að vera rétt. Það er eðlileg athugasemd að menn vilji ekki láta ráðast inn í bókhald sitt án gildrar ástæðu. Við bárum það undir sérfræðing í umhverfisráðuneytinu og í Umhverfisstofnun og gerum okkur ánægð með svarið sem þaðan barst. Ég ætla ósköp einfaldlega að lesa það þannig að það komist í þingtíðindin. Það var svona, með leyfi forseta:

„Framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á raf- og rafeindatækjum sem þeir flytja inn til landsins og þeir framleiða hér á landi.“

Það er rétt sem fram kemur í athugasemd þeirri sem ég talaði um áðan — og ég les áfram:

„Gögn yfir innflutning raf- og rafeindatækja eru fengin frá tollstjóra. Þessi gögn tollstjóra innihalda ekki að öllu leyti upplýsingar um þau raf- og rafeindatæki sem framleidd eru hér á landi, þ.e. ekki er víst að allt hráefni í þau sé flutt til landsins á tollnúmerum sem tilheyra raf- og rafeindatækjum, t.d. málmur, plast, gler. Því þarf að vera til staðar heimild til þess að afla upplýsinga um sölumagn raf- og rafeindatækja sem framleidd eru hér á landi og sett á markað hér.“

Ég hef þá lestur síðari hluta þessa svars frá sérfræðingnum á Umhverfisstofnun, með leyfi forseta:

„Þó að e-liður verði samþykktur er áfram gengið út frá að notast verði við gögn frá tollstjóra um magn innflutnings á raf- og rafeindatækjum. Við skoðun á tollskýrslum vegna innflutnings á raf- og rafeindatækjum hefur komið í ljós að skráning tækjanna, magn þeirra og þyngd hefur ekki verið í öllum tilvikum hárnákvæm. Til dæmis hefur raftæki verið sett í rangan tollflokk og þyngd áætluð. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt þar sem tollskýrslugerðin er ekki unnin út af framleiðendaábyrgð. Því er lagt til að stýrinefndin hafi heimild til að sannreyna sölumagn raf- og rafeindatækja, þ.e. hvort það sé í samræmi við gögn frá tollstjóra. Þetta er hugsað sem heimild“ — segir í þessu svari frá Umhverfisstofnun — „og ætlað að hún verði einungis notuð þegar tilefni er til, þ.e. þegar grunsemdir eru uppi um að fyrirtæki gefi rangar upplýsingar við innflutning. Einnig má hugsa sér að hægt væri að nota heimildina til að finna út hvort fyrirtæki flytji inn raf- og rafeindatæki á öðrum tollnúmerum en tilgreind verða í reglugerð og komast þannig hjá skyldu sinni um að verða aðilar að skilakerfi.“

Á grundvelli þessarar umsagnar eða viðbragða liggur ekki fyrir nein önnur tillaga frá nefndinni en að frumvarpið verði samþykkt hér óbreytt frá 2. umr. að undantekinni þeirri breytingartillögu sem formaður nefndarinnar flytur og ég kynnti áðan.