139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2011--2013.

618. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaátak í vegamálum á árunum 2011–2013. Tillagan ber að sjálfsögðu þann keim að flutningsmenn hennar eru orðnir langeygir eins og margir aðrir eftir því að tekið verið af skarið í framkvæmdum þannig að menn í atvinnugreinum sem hafa byggst upp undanfarin ár geti að einhverju leyti horft fram á veginn og gert áætlanir eða komið í veg fyrir í það minnsta að þurfa að segja upp fólki frekar en orðið hefur.

Þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum og er í henni bent á leiðir til að fjármagna þær framkvæmdir. Ég vil þó segja hér í upphafi að mjög mikilvægt er að stjórnvöld láti nú af því að tala um árangur og tala um framkvæmdir og láti verkin tala. Það kann að vera að meiningarmunur sé á milli þingmanna og milli ráðherra innan ríkisstjórnar hvernig fjármagna skuli framkvæmdir, en það er engu að síður mikilvægt að hreyfa við hlutunum.

Það sem er m.a. áhugavert í þingsályktunartillögunni er sú samantekt sem er á bls. 2 og 3 um yfirlit yfir möguleg útboðsverk. Þar sjáum við að þetta eru mörg verk sem eru tiltölulega smá þegar miðað er við þau stórverkefni sem mikið hefur verið horft til, jarðgangagerð og þess háttar. Það er nú svo að margir vinna hjá smærri verktökum sem geta tekið að sér smærri verk þó að þeir ráði ekki við þau stærstu. Mjög mikilvægt er að reynt sé að koma til móts við þá aðila á einhvern hátt, t.d. með því að koma af stað smærri verkum því að oft hafa stóru aðilarnir minni áhuga á þeim. Reyndar er umhverfið þannig í dag að það er slegist um hvern metra sem á að fara í vegagerð.

Það er vissulega rétt sem komið hefur fram hjá innanríkisráðherra og öðrum að dýrara er að framkvæma í dag en oft hefur verið, t.d. þegar kemur að því að malbika. Olían hefur hækkað þann kostnað gríðarlega mikið. Engu að síður er mikilvægt að stoppa ekki, að láta ekki staðar numið. Ef við hættum að framkvæma, ef við hættum að horfa til þessarar mikilvægu atvinnugreinar vitum við að þekking tapast hreinlega, eðlilega fækkar fólki sem starfar í greininni, tæki munu eldast, þau verða hugsanlega flutt úr landi og það hefur vitanlega gerst í stórum stíl. Þegar fer að glæðast aftur í framkvæmdum, eftir væntanlega mörg ár ef þessi ríkisstjórn situr eitthvað áfram, þá þarf að eyða ómældum gjaldeyri í að flytja aftur inn tæki og tól. Ég held því að við séum að missa býsna góðan tíma til framkvæmda, og erum þegar búin að því, og þar af leiðandi að tapa þó nokkrum tíma í að koma hjólum atvinnulífsins og samfélagsins af stað aftur því að án atvinnu munum við ekki reisa við landið á ný, það er alveg ljóst.

Það er dæmi um hvernig staðan er á þessum markaði þegar við sjáum tilboð í verk sem eru niður undir jafnvel 50% af kostnaðaráætlun. Auðvitað eru dæmi um annað. Það eru að sjálfsögðu dæmi um tilboð yfir kostnaðaráætlun, en við sjáum dæmi þess að þarna sé farið mjög neðarlega. Það er mikið áhyggjuefni. Það er býsna góður mælikvarði á ástandið, held ég, á markaðnum.

Annað sem hefur vakið athygli mína, eða mér var bent á, er hvernig staðið er að vali á verktökum, t.d. hjá ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun, svo ég nefni það. Verktakar hafa stundum klórað sér í höfðinu yfir því hvernig það er praktíserað og mun ég væntanlega reyna að komast til botns í því með formlegri hætti en hefur verið hingað til.

Hér er nefnt hversu mörg störf er unnt að skapa með framkvæmdum sem þessum. Það eru ekki einungis störf sem verða til í kringum framkvæmdirnar sjálfar heldur eru afleidd störf töluvert mikil í þjónustu og slíkum greinum. Ekki síður er mikilvægt að horfa til þess að með vegaframkvæmdum, og ekki síst þar sem horft er til öryggisþátta og það að tengja byggðir, eru þetta samfélagslega mikilvæg verkefni. Vil ég nefna í því sambandi þingmál sem lagt hefur verið fram og snýr að því að höggva á þann hnút sem er varðandi það að tengja suðurfirði Vestfjarða við meginlandið, vil ég leyfa mér hreinlega að orða það, ástandið er þannig. Það er dæmi um framkvæmd sem þyrfti að flýta mjög mikið.

Síðan er það hitt sem kemur fram í tillögunni að víða eru vegkaflar og vegbútar sem hreinlega verður að fara í út frá öryggissjónarmiðum og öðru slíku, vegir sem eru langt komnir, lítið eftir til að klára og vegir t.d. í dreifðari byggðum þar sem verið er að aka með skólabörn að vetri til og eru beinlínis varasamir út af því. Átak sem þetta mundi því hreyfa við mörgum hlutum.

Ég fagna því að þessi þingsályktunartillaga er komin fram. Ég hygg að samgöngunefnd hljóti að taka hana til ítarlegrar og góðrar yfirferðar og leita álits á því sem þarna kemur fram og jafnvel vil ég mælast til þess að reynt verði að meta, ef mögulegt er, þjóðhagsleg áhrif af að fara í slíkt stórverkefni, þetta er vitanlega stórverkefni ef við förum í áætlun sem þessa.

Það er mikilvægt að halda áfram að gera jarðgöng og eyða torfærum og hættulegum vegum og köflum sem eru varhugaverðir og varasamir. Við verðum líka að horfa á hina myndina, hina vegina. Þá kemur þessi tillaga og listinn sem hér er til með að hjálpa okkur. Ég vil því lýsa því yfir að ég styð heils hugar að þessi þingsályktunartillaga nái fram að ganga.