139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

innflutningur dýra.

668. mál
[16:54]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytingar á lögum um innflutning dýra. Auk mín eru flutningsmenn hv. þm. Magnús Orri Schram og Ólína Þorvarðardóttir.

Málið snýr að svokölluðum gæludýravegabréfum sem við höfum ekki innleitt í kerfi okkar á Íslandi en er auðvitað löngu tímabært að við gerum. Við höfum af sögulegum ástæðum og oft af efnislegum ástæðum haft ákaflega strangar reglur um innflutning dýra til landsins. Fyrir því eru auðvitað á ýmsum sviðum sterk og góð rök en þegar kemur að gæludýrum eru þau hins vegar tiltölulega fá og haldlítil, einkum þar sem við búum við það góða eftirlit sem dýr geta notið hjá dýralæknum í bólusetningum og öðru slíku eftirliti.

Því er þannig háttað að menn geta frá syðstu strönd Grikklands sem væri þá trúlega suðurströndin á eyjunni Krít og allt til nyrstu stranda Noregs, norður á Svalbarða, farið með gæludýr yfir öll landamæri allra þeirra ríkja sem þar eru, óháð því hvaða sjúkdómar hafa komið upp á einstökum svæðum, hvort hundaæði er í einstökum ríkjum eða ekki, hafi viðkomandi dýr einfaldlega sætt því nauðsynlega eftirliti sem þarf að vera af hálfu dýralæknis og hlotið nauðsynlegar bólusetningar og hafi dýralæknir sömuleiðis gengið úr skugga um að dýrin hafi myndað mótefni við tilteknum sjúkdómum. Að þessum skilyrðum uppfylltum eru sem sagt gefin út vegabréf fyrir gæludýrin þannig að eigendur þeirra geta ferðast með þau frjálst alveg frá því sem syðst er í Evrópu og alla leiðina nyrst án þess að nokkur vandkvæði séu á því.

Í sífellt minnkandi heimi er þetta auðvitað til mikils hagræðis fyrir fólk sem á ættingja erlendis sem það heimsækir reglulega og vill hafa dýrin sín með, á sumarhús í öðru landi en það býr í eins og til dæmis er títt um Íslendinga marga, fólk fer í orlofsferðir um lengri tíma, sumarleyfi eða annað slíkt. Alþjóðavæðing og aukinn hreyfanleiki fólks milli landa er nokkuð sem eykst ár frá ári og mun aukast mjög verulega á komandi árum og áratugum. Þetta á líka við um fólk sem fer til skemmri tíma til námsdvalar en auðvitað er þetta ekki síst til mikils hagræðis þegar kemur að hundum sem eru ekki gæludýr heldur eru til nota, svo sem leiðsöguhundar og sömuleiðis hundar sem notaðir eru til björgunar. Hún er til mikilla trafala, sú einangrun sem gerð er að skilyrði fyrir því að hægt sé að koma með þá aftur til landsins ef þeir fara út fyrir landamæri Íslands því að þá er gert ráð fyrir því að þeir þurfi við núverandi skipulag að sæta einangrun þó að ekki séu efnislegar röksemdir fyrir því að dýr sem eru undir svo góðu eftirliti þurfi slíks við. Það getur bitnað á þjálfun dýranna, bæði björgunarhundanna fyrir björgunarsveitirnar og sömuleiðis þjálfun leiðsöguhundanna.

Það frumvarp sem hér er flutt miðar sem sagt að því að við tökum upp það sama fyrirkomulag og er í öllum okkar heimshluta frá Miðjarðarhafinu og norður í Íshaf, að unnt sé að ferðast með dýr innan þess svæðis þar sem þetta sama kerfi er virkt, þ.e. frá Miðjarðarhafi og norður til Íshafs, að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum um eftirlit dýralækna, reglulegar skoðanir, bólusetningar, að gengið sé úr skugga um að dýr hafi myndað mótefni og annað slíkt. Það nær auðvitað ekki til þess að ferðast með dýrin til Afríku, Asíu eða annarra heimshluta sem ekki eru hluti af þessu kerfi.

Ekki er gert ráð fyrir því að þetta nái til búpenings enda eru allt önnur rök og allt aðrar aðstæður sem eiga við um kindur og kýr, og ekki hvað síst auðvitað um hesta þar sem við stöndum vörð um okkar sérstaka íslenska kyn. Þau sjónarmið eru ekki uppi þegar kemur að gæludýrunum enda hefur íslenska fjárhundinum til að mynda ekki verið nein sérstök hætta búin af því þó að leyfður hafi verið innflutningur á öðrum tegundum hunda til landsins og verður í sjálfu sér engin breyting á stöðu íslenskra tegunda hvað því viðvíkur þó að þetta sé heimilað gagnvart gæludýrum.

Að lokinni þessari umræðu vonast ég til þess að sú nefnd sem fær málið, sem ég hygg að verði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem fer með þau lög sem gilda um innflutning dýra, geti tekið til óspilltra málanna á nefndadögum, tekið málið til umfjöllunar og leitað umsagna þar til bærra aðila um þessar breytingar sem ég tel löngu tímabærar eins og fram hefur komið í máli mínu.